Sunday, November 13, 2005

 

131105.

Sunnudagur og rigning. Gott veður á þessum árstíma.Snjórinn er á hröðu undanhaldi. Undirritaður vaknaði óvenjuseint í morgun. Klukkan að verða 6. Raikonen bara nokkuð spakur í nótt. Hóf daginn að venju með kaffidrykkju. Og lagði síðan land undir fót í rigningunni. Þetta varð eiginlega listdans á gúmmístígvélum. Einkum spennandi að labba á blautum klakanum. Datt í hug gömul sannindi úr barnaskóla. Maður færir annan fótinn fram fyrir hinn til að verjast falli. Ég hafði nú ósjálfrátt alltaf fært fótinn fram til að komast áfram. Svo er auðvitað hægt að labba afturábak. Annað hvort aftur á bak, ellegar nokkuð á leið.... Ég lét mig nú hafa það að dragnast til vinnu á föstudaginn. Gekk nú svona nokkuð vel bara. Pestin á undanhaldi og heilsan bara góð í dag. Dreif mig niður á strönd í gær svona til að þefa aðeins af sjónum. Ók fram hjá Litla-Hrauni, eða Letigarðinum eins og þessi staður var nú lengst af kallaður. Hugsaði með mér, að andskoti væri nú gott að þurfa ekki að vera lokaður þarna inni. Varð hugsað til þess þegar ég var fangelsaður fyrir 14 árum. Að sumu leyti varð það nú svolítð skemmtilegt. Ég var handtekinn, grunaður um lögbrot. " Valdstjórnin" lætur ekki að sér hæða. Og þegar ég vildi ekki meðganga glæpinn var mér stungið í svartholið. Og svona til öryggis var greiðan tekin af mér og einnig beltið. Aldeilis afleitt ef glæponinum tækist að hengja sig áður en hann játaði. Eða að hálfsarga af sér hausinn með greiðunni. Einhvernveginn leið nóttin. Og löggan taldi víst að nú myndi þrjóturinn játa allt. En hann var jafnvel enn forhertari en kvöldið áður. Harðneitaði áfram að hafa brotið lögin. Og þeim hafði stundum tekist að fá skálka til að játa með því að hóta þeim innilokun uns þeir játuðu og iðruðust. Stungu mér inn aftur. En ég krafðist þess að vera leiddur fyrir dómara. Og kauðar vissu að ég hafði verið að vasast í lögfræði. Dómarinn kom og ég heimtaði frelsi mitt. Og fljótlega eftir hádegi sigraði réttlætið, aldrei þessu vant. Lögmaðurinn var leystur úr prísund sinni. Og mér þótti svolitið skondið að einn þessara laganna varða tók jafnan á sig krók næstu mánuði ef hann sá þessum grunaða glæpamanni bregða fyrir. Faldi sig bak við hillur í Vöruhúsinu og snarsnéri sér við í dyrum. Ég lét mér vel líka. Svo liðu árin og í fyrra keypti ég mína ágætu íbúð af þessum sama laganna verði. Vorum löngu sáttir. Og eftir afsalið kyssti ég konuna hans á kinnina. Hann brosti út að eyrum. Ég lét nú nægja að taka í höndina á honum.Og kannski var það bara hollt fyrir lögmann að fá að kynnst reynsluheimi glæpamannsins af eigin raun. Betur til þess fallinn að vera í sporum verjandans. Svona getur nú tilveran verð fjölbreytt, krúttin mín, ykkar Hösmagi, enn með ritræpu.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online