Saturday, November 05, 2005

 

Sjálfumgleðin.

Kominn sunnudagur og rauðhausarnir í Ástjörn löngu komnir á stjá. Veðrið gott þó myrkrið sé svart. Horfði á skemmtiþátt í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hljómsveitin heitir hann og er eins og við Sverrir bílasali. Kom í stað þáttarins Leiðindakvöld með Gísla heilaskurðlækni. Yfirgengilega fáfengileg leiðindi að þeirri skemmtan. Þessi snillingur lenti í 3ja sæti í prófkjöri íhaldsins. Þó hann hafi tapað vann hann samt. Hélt þennan voða fína fund um daginn þar sem fundarmenn migu á sig hver um annan þveran yfir þessari sól sem skein svo glatt á þá. En úrslitin í prófkjörinu eru okkur vinstrimönnum vonbrigði. Nú geta menn kosið íhaldið óttalausir um að snillingurinn sjálfumglaði verði borgarstjóri í Reykjavík. Sjáum hvað setur.

Í þessum ágæta þætti hennar Möggu Stínu í gærkvöldi var Helgi Björnsson að syngja með ágætum kvintett. M.a. með nafna minn Flosason innanborðs. Og tónlistin ekki af verri endanum. Lögin hans Magnúsar Mannakorns. Mér er nú vel til Helga Björnssonar. En það getur verið tvíbent að troða slóðir snillinganna. Ég held að öll lögin sem Helgi söng í gærkvöldi séu á frábærum diski Mannakorns sem heitir Spilaðu lagið. Einkadóttir Hösmaga gaf honum þennan disk fyrir nokkrum árum. Og Helgi hefði átt að velja eitthvað annað til að syngja inná hljómdisk. Hann kemst ekki með tærnar þar sem Pálmi Gunnarsson er með hælana. Samanburðurinn stórskemmir fyrir Helga. Eini maðurinn sem hugsanlega hefði gert þetta jafnvel og Pálmi er löngu farinn héðan. Vilhjálmur Vilhjálmsson hefði örugglega notið sín í þessum lögum. Þarna er t.d. lagið Ég elska þig enn sem ég hef örugglega spilað miklu oftar en hin lögin á diskinum. Helgi reyndi sitt besta en útkoman var afar döpur. Svona hér um bil eins og færi að syngja Hamraborgina á eftir Kristjáni Jóhannssyni. En músikin stóð að sjálfsögðu fyrir sínu. Svo kom Spaugstofan. Og Dóri litli hefur ekki skemmt sér yfir henni í gærkvöldi. Aumingja Dóri. Pálmi Gestsson bara við sama heygarðshornið. Svona leikur vonska heimsins besta fólk.

Hafði mig nú ekki í Reykjavíkurför í gær. Leti og ómennska heimafyrir. Kannski bregð ég mér bara í dag. Sá að ég hafði 3 öftustu tölurnar í Lottójókernum réttar. Fæ kannski 10 þúsund kall?Betra en ekkert. Átvaglið mikla, kötturinn í næstu íbúð, er nú mættur. Aldeilis ótrúlegt hvað hann getur góflað í trýnið á sér. Um daginn biðu þeir tveir við dyrnar. Ruddust inn um leið og ég opnaði. Annar í þurrmatinn og hinn að ýsunni. Hvæstu á hvorn annan og gjóuðu lymskulegum glyrnum. Og Raikonen sat bara á rassgatinu og horfði í forundran á þetta. Þessar aðfarir og hljóðin voru ofar skilningi þessa siðfágaða dýrs.

Leggst nú aftur undir sængina. Með gleraugun og Ofvitann. Kannski ég sé líka ofviti? Njótið dagsins, elskurnar mínar, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online