Sunday, November 20, 2005

 

Gúrka.

Virðist vera gúrkutíð hjá bloggurum þessa dagana. Kannski bara gott. Engar fréttir eru góðar fréttir. Allavega ekki mjög slæmar. Held að þau Ingunn Anna og Egill hafi skemmt sér þokkalega í leikhúsinu í gær. Og undirritaður reyndar einnig. Syrpa úr verkum H.C. Andersens. Næturgalinn, Eldfærin, Litla stúlkan með eldspýturnar, Hans klaufi, Svínahirðirinn og fleira. Það var lymskuleg færð á leiðinni austur. Slydda og hitinn við frostmark. Mætti löggu og sjúkrabíl í Ölfusinu. Sá á vefnum að jeppi hafði oltið í Kömbunum. Það hefur sennilega ekki verið nokkur vandi fyrir bílstjórann. En það hefði líka verið enn minni vandi að láta þetta ógert. Auðvitað lítur svona dræver ekki í eigin barm. Allt hálkunni að kenna. Þegar svona veður er gilda gömlu, góðu reglurnar hans Óla Ket. Nr. 1. Aka hægt. 2. Aka hægt og 3ja reglan alveg eins. Og svo er ég á svo fínum og dýrum vagni að ég hef einfaldlega ekki efni á að velta honum. Guð gefi bílnum góðan dag í Kömbum.

Nú lifir aðeins 41 dagur af árinu 2005. Bara mánuður í að birta taki á ný. Og meðan veðrið helst svona tekur maður hverjum degi með fögnuði. Hitti Tangavatnshjónin í vikunni. Boðaði komu mína í desember ef vel viðraði. Jafnvel við annan mann. Myndi stytta biðina í vorið og dásemdirnar sem því fylgja. Stundum kenna börnin okkur einföld sannindi. Ég var oft að lýsa því yfir að ég vildi hafa nóttlausa voraldar veröld allt árið. Eilífa Jónsmessu. En skáldið sagði mér að þá gæti ég ekki hlakkað til vorsins lengur. Þetta er auðvitað alveg rétt. Enda verðum við öll að una þessu.

Fremur rólegt í starfinu þess dagana. Þó var síðasta vika fljót að líða. Er að vona að ég sé endanlega laus við pestarskrattann eftir pilluátið. Ég er sem sagt hættur á pillunni. Gerir ekkert til því ég er svo skelfilega stilltur. Svona akkúrat eins og er. Held nú samt að skjortejegerinn sé nú ekki alveg útdauður. En það getur auðvitað verið erfitt að sitja endalaust á strák sínum. Bestu kveðja, ykkar Hösmagi, hrosshraustur.

Comments:
Jeppinn þarf sannarlega að vera klár í Tangavatnsferð í desember.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online