Tuesday, November 01, 2005

 

Nokkuð góður.

Heilsan að skána. Ég get sagt eins og Sverrir bílasali þegar hann var spurður álits á bílunum sem hann var að selja. Þó það væru oft á tíðum örlagadruslur svaraði hann ávallt: Ég held að hann sé bara nokkuð góður. Mér finnst ég bara vera nokkuð góður. Eg er jafnframt viss um að ég er ekki örlagadrusla.Og andlega heilsan beið engan hnekki. Fyrirlít þá Bush og Rumsfeld jafnvel enn meira en áður. Og undirlægjur þeirra hér á landi. Nefni samt engin nöfn en þær eru allt of margar. Nýjustu fréttir frá þeim félögum, Bush og afturgöngunni, eru þær að " hryðjuverkamenn" hafi drepið 26.000 Íraka. Og það fylgdi ekki sögunni hvað þeir hefðu drepið marga sjálfir. Nú hafa yfir 2.000 bandaríkjamenn dáið hetjudauða fyrir þessa forustumenn sína. Við að verja frelsið. Hin bandarísku gildi sem eru öllum öðrum gildum ofar. Ég efast um að foreldrar þeirra, eiginkonur, börn, aðrir vandamenn og vinir séu ánægð. En það er auðvitað sama sjónarmiðið hjá afturgöngunni og Hitler sáluga. Ekkert var eftirsóknarverðara fyrir þýskan hermann en að deyja hetjudauða fyrir foringjann. Hvernig í ósköpunum má það vera að svo margir skuli vera sammála þessum glæpalýð sem stjórnar stríðsrekstrinum í Írak? Sem betur fer eru þó margir bandaríkjamenn á móti þessum óhæfuverkum. Vona að þeim verði eitthvað ágengt þó vonlaust sé að koma vitinu fyrir núverandi forustumenn þeirra.

Sama hreinviðrið áfram. Raikonen kominn inn aftur eftir hinn daglega rannsóknarleiðangur. Vart friður við tölvuna fyrir vinahótum. Þarf að vara mig á honum því í miðju bloggi um daginn stökk hann á lyklaborðið og bloggið skaust út í eterinn. Og það er auðvitað alltaf andríkasta og merkilegasta spekin sem fer þá leiðina. Verð líklega að taka mér tak við uppeldið.

Ég uppgötvaði allt í einu í morgun að í gær voru 4 ár liðin frá því ég hóf störf á fasteignasölunni Bakka. Og það er greinilegt að árin líða nokkuð hratt. Finnst þetta ekki langur tími. Þó hafa orðið miklar breytingar á lífi mínu þessi ár. Allt í fastari skorðum en áður og fjárhagsáhyggjur minni. Það er slæmt fyrir sálina að hafa stöðugar áhyggjur af morgundeginum. Ég þarf ekki að kvarta en því miður eru of margir í þessari vondu stöðu. Þó maður velti stundum fyrir sér ranglætinu í heiminum er mikilvægt að halda jafnvægi hugans. Tilveran heldur áfram þó við verðum að þola menn á borð við Bush og Rumsfeld. Nóg kveðið að sinni, með kveðju frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, gott ef þú ert bara ekki nokkuð góður!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online