Friday, November 04, 2005

 

Andlegur horlekandi.

Forsætisráðherrann okkar, hann Dóri litli, er voða pirraður á Pálma Gestssyni. Segir að hann hafi aldrei talað við sig og þekki sig ekkert. Hann sé því alls ekki í neinni stöðu til að herma eftir sér. Verði að kynna sér viðfangsefnið. Ósköp geta nú forsætisráðherrar verið blankir í höfðinu stundum. En það er auðvitað alls ekki von að Halldór botni neitt í þessu. Telur líkast til að allir eigi að dæma sig eins og hann gerir sjálfur. Pálmi segist ekki skapa ímyndir. Það geri menn sjálfir. Og Halldór á bara að sætta sig við það og vera ekki að væla eins og auli þó honum mislíki. Skárra að þegja en opinbera hörundsærið fyrir alþjóða. Þórbergur Þórðarson hefði flokkað þetta undir andlegan horlekanda. Vona annars að þeir Dóri og Pálmi hafi það fínt um helgina. Steik að éta og koss frá fúnni. Sjálfur fæ ég hvorugt. Orðinn því svo vanur að það gerir ekkert til. Svona líkt og ánamaðkarnir. Hættir að finna fyrir sársauka við að vera þræddir uppá öngul. Orðnir svo vanir þessu.

Nú er komið hér ekta Tangavatnsveður. Logn og hitinn 10 gráðum hærri en í gærmorgun. Og Skyrgámur að teyga í sig ferska loftið. Nýjasta viðurnefnið á Smjattpattanum Raikonen. Ég var að éta skyr um daginn. Hafði ekki nokkurn frið fyrir kettinum. Svo ég lét 2 skeiðar af þessum eðalmat á disk. Og þær hurfu á mettíma. Ekki öreind eftir. Held að ég hafi aldrei áður á æfi minni séð kött éta skyr. En það er auðvitað fleira matur en feitt kjöt.
Ég sá það á blogginu hans Sigga að hann ætlaði að hafa pela af brennsa með sér við móttökuathöfnina fyrir skáldið. Hafa vonandi ekki gleymt að skála fyrir undirrituðum. Vona samt að lífernið verði skikkanlegt á þeim fornvinum. Raikonen kominn inn úr blíðunni og undirritaður hyggst nú fá sér smá nirvana. Láta sig dreyma um forna frægð mill svefns og vöku.
Bestu kveðjur, ykkar síeinlægi Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online