Thursday, November 24, 2005

 

Aumingi með hor.

Það voru vond skammaryrði í gamla daga að vera kallaður aumingi með hor. Hafði þó ekkert með kvef að gera. Þetta er þó lýsandi ástand á undirrituðum þessa stundina. Var ekki fyrr laus við pestina en kvefið tók að herja á mig. Er þó vel vinnufær en mikið andskoti er þetta samt hvimleitt. Símatæknirinn á Bakka ráðleggur engiferrót og hvítlauk. Er að hugsa um að leggjast í hvítlaukinn eftir vinnu í dag. Það verður þá bara Raikonen einn sem þarf að þola andardráttinn. Hann liggur reyndar hér utan í handleggnum á mér. Lygnir aftur glyrnum sínum og sýnist líða afar vel. Stálhraustur og ekki aumingi með hor.

Hér er nú stilla og svolítið frost. Spáir aftur þíðu eftir helgi. Nóvember að verða lokið og þá er stutt í nýja árið.Vona að það verði ekki síðra veiðiár en 2005. Og það er hægt að rjúfa þessa 9 mánaða meðgöngu með Tangavatnsferð ef veður verður hagstætt. Hyggst fara með 3 stórurriða og 4 laxa í reykhúsið á eftir. Nokkur ættmenni og vinir njóta svo er nær dregur jólum. Heldur dýrari þessi jólakort mín en örugglega miklu vinsælli. Líka gott að geta étið þau með jólabrauðinu. Það er að verða jólalegt umhverfið hér. Brúin í ljósaskrúða og Gleðileikurinn djöfullegi kominn í Nóatún. Hef nú ekki séð dóma um þetta stóra kver enn. Bíð bara spenntur eftir umsögn menningarvitanna. Annars virðist öll bókmenntaumræðan snúast um glæpasögurnar. Annar hver maður farinn að skrifa krimma. Ekkert farinn að lesa af þessu ennþá, enda á kafi í upprifjun um Ofvitann mikla. Elskuna hans og Millilandafrumvarpið. Góðu íslendingana annarsvegar og dönsku íslendingana hinsvegar. Hefði örugglega verið í flokki með meistaranum. Dáðst að Magnúsi Arnbjarnarsyni lögspekingi og sungið níðvísur um dani. Finnst þó vænt um þessa þjóð. Kynnst nokkuð mörgum dönum sem undantekningarlaust er skemmtilegt sómafólk. Hrifnari af þeim en svíunum að ég nú ekki tali um þetta lið í Noregi sem alltaf er kallað frændur vorir. Vona að ég sé ekkert skyldur þeim. Enda handviss um að ég er af írsku konungakyni. Kannski verið írskur munkur í fyrra lífi? Sendi ykkur góðar helgarkveðjur, ykkar Hösmagi með minniháttar lekanda.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online