Friday, November 25, 2005

 

Opinberun Hannesar.

Ef ég man rétt var gerð kvikmynd með þessu nafni eftir einhverri sögu sem yfirnagarinn í seðlabankanum setti saman einhverntíma. Í kastljósi sjónvarpsins í gjarkvöld kom svo ný útgáfa af opinberun Hannesar. Hannesar prófessors. Besti vinur frelsisins hefur talað. Útskýrði nákvæmlega fyrir lýðnum hvað felst í því að segja sannleikann. Einkanlega um Jón Ólafsson. Hannes hefur hlotið dóm fyrir meiðyrði um Jón. Fullyrti að Jón hefði stundað dópsölu og þannig komið undir sig fótunum í bisness sínum. Ég neyddi sjálfan mig til að hlusta á viðtalið til enda. Nauð mín felst í því að mér verður alltaf flökurt ef ég sé eða heyri þennan mann. Manninn sem skyldi ekki spurninguna um hvort hann hefði enga siðferðiskennd. Nú er það svo að lífseigar kjaftasögur um dópsölu Jóns Ólafssonar lifa enn góðu lífi. Enda voða þægilegt fyrir vissan hóp manna að trúa þeim. Staðreyndin er þó sú að ekkert hefur sannast á hann í þessum efnum. Jafnvel Hannes Hólmsteinn verður að viðurkenna það. Samt sem áður telur hann sig segja sannleikann með því að fullyrða að Jón hafi efnast á dópsölu. Og hvernig má það nú vera? Jú, þessi orð voru sönn í því samhengi sem þau voru sögð. Haugalýgi getur sem sagt orðið sannleikur ef lygin er sögð í réttu samhengi. Og hvert var svo samhengið? Kjaftasögur gulu pressunnar fyrir 10 árum. Hvorki meira né minna. Eru þetta fræðin sem þessi maður er að kenna uppí háskóla? Fræðin um að það megi ljúga að vild sinni ef tilgangurinn helgi meðalið? Krossförum frelsisins er allt leyfilegt. Þegar lögin um fjármagnstekjuskatt voru sett að undirlagi yfirnagarans og skoðanabræðra hans, var ákveðinn þjóðfélagshópur hafður í huga. En svo fóru bara andstæðingar sjálfstæðisflokksins að notfæra sér þetta líka. Fóru bara að lifa í vellystingum praktuglega og borga vinnukonuútsvar. Helvítis dólgarnir. Hljóta að vera stórtækustu skattsvikarar íslandssögunnar. Ekki dettur mér í hug að Jón Ólafsson væri í þessari stöðu ef hann hefði látið eitthvað af sviknu skattpeningunum og ágóðanum af dópsölunni renna í flokkssjóði sjálfstæðisflokksins. Dettur yfirleitt nokkrum það í hug? Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði hér einu sinni um þá Hannes og Rumsfeld. Fari þeir bara í fúlan rass.

Yndislegt helgarfrí byrjað. Dásemdarlogn úti. Skáldið komið heim. Farinn að kynna Gleðileikinn og hugsa um fiska. Þarf örugglega ekki að leggja hart að föður sínum ef færi gefst til stangveiði.Horfir nú ekki illa í þeim efnum. Guð mun að vísu ráða hvar við dönsum næstu jól. En eins og Jón Grindvíkingur sagði gjarnan: Sem sagt gott. Ykkar einlægur, Hösmagi, með smá velgju eftir fyrri hluta pistilsins.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online