Friday, November 11, 2005

 

Miðjumoðið.

Undirritaður var að lesa grein eftir Sigga sænska á Sellunni. Ég get ekki betur séð en þessi skrif séu fúlasta alvara. Framsókn og Samfylkingin í eina sæng. Hin miðsæknu félagshyggjuöfl. Og hvað er nú það? Fátt er ömurlegra í pólitík en að vera miðsækinn. Endurspeglar einungis hugsjóna- og afstöðuleysi í pólitíkinni. Bara að geta verið við katlana og veitt upp úr þeim. Og Björn Ingi orðinn einn efnilegasti stjórnmálamaður landsins. Þessi brynvarða senditík Halldórs Ásgrímssonar. Þess hins sama og hélt ræðuna í gærkvöldi. Ræðuna um vanþakklæti þjóðarinnar gagnvart framsókn. Flokknum sem gaf útvöldum símann og báða ríkisbankana. Þetta fyrirbæri sem kallast forsætisráðherra opinberaði í gærkvöldi hvað hann er í raun og veru. Einfaldlega nátttröll í íslenskum stjórnmálum. Hann lýsti því yfir að framsókn ætlaði ekki að "neyða bandaríkjamenn" til að vera hér ef þeir vildu það ekki. Ég hef reyndar aldrei skilið veru Halldórs í framsóknarflokknum. Kannski er hann á réttum stað miðað við hvernig flokkurinn er orðinn eftir allt samstarfið með íhaldinu. Samvinnuhugsjónirnar löngu fyrir bí og ómenguð hægri stefnan ein eftir. Það er óravegur frá því að Halldór skilji einfalda hluti. Kanarnir hafa aldrei verið á Íslandi í þágu íslendinga. Þeir hafa verið hér í eigin þágu en ekki okkar. Nú þjónar það tilgangi þeirra ekki lengur. Vantar mannskap í góðverkin í Írak. Og aumingja við verðum varnarlausir og berstrípaðir eftir. En það gerir auðvitað ekkert til. Hin nýja breiðfylking hinna miðsæknu félagshygguafla mun vernda okkur. Fram, fram hin nýja breiðfylking, hallelúja, ykkar Hösmagi.

Comments:
Flestir stærstu glæpir mannkynssögunnar hafa verið framdir af öfgasinnuðum stjórnmálamönnum, og eru enn. Ég held að í miðsókninni sé meira falið en þig grunar, sáttahlutverk sem er þó skömminni skárra en æsingaræður og yfirgangur öfgaaflanna. Bestu kveðjur frá Edinborg, Sl. Bj.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online