Thursday, September 22, 2005

 

Þensla.

Í dag, 23. september 2005, er nákvæmlega eitt ár frá því undirritaður festi kaup á þessari ágætu íbúð sem ný hýsir okkur Raikonen.Finnst það raunar hálfótrúlegt. Það er einkennilegt þjóðfélag sem við lifum í hér á Íslandi. Og mótsagnakennt. Ungt fólk kaupir sér íbúð og slær lán fyrir nærri öllu kaupverðinu. Þetta er mjög reglusamt fólk. Það reykir ekki og bragðar ekki áfengi. Svo dettur fjármálaráðherranum í hug að hækka brennivínið. Það er auðvitað inní neysluvísitölunni. Og hún hækkar. Lánið er bundið henni og lánið sem hið unga og reglusama fólk var að taka hækkar um tugi þúsunda um leið. Á þetta að vera svona? Auðvitað ekki. Við erum bara í vítahring meðan verðtryggingin er notuð sem eina úrræðið í efnahagsmálum. Hækkunin á neysluvísitölunni undanfarið ár er reyndar langmest vegna hækkunar á íbúðaverði.Kjarasamningar í uppnámi. Stjórnvöld virðast aldrei læra neitt af reynslunni. Allra síst þau sem nú eru við stýrið. Líklega best að hafa það eins og ég hef það. Láta hverjum degi nægja sína þjáningu og kippa sér ekki upp við smámuni. Eða bara eins og Loðvík fjórtándi sagði.
Það lafir meðan ég lifi. Það kemur að því að íbúðaverð hætti að hækka. Og auðvitað getur það lækkað líka. Hvað gerist þá ef fólk hefur tekið 100% lán fyrir íbúðinni eins og margt ungt fólk hefur gert? Það verður að föngum í sínu eigin húsnæði. Ef það vill selja íbúðina og flytja sig um set þá þarf að borga með henni. Upphæð lánsins sem er verðtryggt er orðin meiri en verð íbúðarinnar. Það er eitthvað meira en lítið að í efnahagsmálum þjóðar þar sem þetta getur gerst.Vonandi kemur að því að heilsufarið í efnahagsmálum verði það gott að verðtryggingin verði afnumin.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Hæstiréttur gerir í Baugsmálinu. Ég ætla ekkert að spá neinu um það. En allt er þetta hið undarlegasta mál. Og búið að kosta okkur skattgreiðendur mikið fé. Ég tek nú ekki undir raddir um að Davíð hafi sigað lögreglunni á þá Baugsfeðga. En auðvitað vita allir um hug hans til þeirra. Lögreglan líka. Ég leyfi mér því að efast um að þessi rannsókn hefði farið af stað ef þeir hefðu verið þessum núverandi yfirnagara þóknanlegir. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Efast þó mjög um það. Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online