Monday, September 19, 2005

 

Haustþankar.

Það er komið haust. Frost sumar nætur og vindurinn napur. Svo sem enginn fimbulvetur ennþá. Og verður vonandi ekki. Hafði mig ekki í fjallaferð um helgina. Drungi og leti á laugardag og rigning á sunnudag. Það er eiginlega hálf öfugsnúið að vera í fluggírnum á daginn og þræla sleitulaust fyrir kapitalistana og leggjast svo í leti um leið og heim er komið. Gerði nákvæmlega ekkert um síðustu helgi. Lét mig ekki einu sinni dreyma dagdrauma. Líklega er þetta haustdrungi sem hefur heltekið mig þessa dagana. Alltaf með pælingar um að gera eitthvað nytsamlegt og vitrænt. Og ekki verður neitt úr neinu. Kannski fæ ég vitrun einhvern daginn. Vonandi. Ekki alveg búinn að afskrifa alla veiði á árinu. En ég hef aldrei notið veiðiskapar í kulda og trekki. Þegar frýs í lykkjunum og kuldinn smýgur í merg og bein. Þessvegna hef ég aldrei farið í dorgveiði. Sem hlýtur þó að hafa sinn sjarma. Sumir tjalda bara yfir vökina og kynda tjaldið. Kannski upplifi ég það einhverntíma. Og sjóstöngin enn útundan. Hvernig væri nú að blása til sjóferðar á næsta ári? Þar er enginn kvóti og þeir sem reynt hafa eru kátir þegar í land kemur. Og svo hjálpar Raikonen til við að koma aflanum fyrir kattarnef sitt. Um þessar mundir er dagurinn jafnlangur nóttunni. Haustjafndægur mun það kallast. Gangrimlahjól tímans snýst sinn vanagang. Enn verðum við að þrauka Þorrann og Góuna. Vonum að landsfeður vitkist þó lítil von sé til þess. Hringleikarnir við Austurvöll að hefjast. Halldór reyndar í fríi. Vonandi verður hann þar sem allra lengst. Með haustkveðju, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online