Tuesday, September 06, 2005

 

Dögun.

Stilla og 1°. Aðeins farið að birta. Við Raikonen löngu komnir á stjá. Báðir bara nokkuð ánægðir með tilveruna. Gott kaffi frá Kaffi-Tári. Morgundögg heitir það og líklega frá miðameríku. Siðasti laxinn í veiðibókinni var veiddur á laugardaginn var. Septemberlax hefur ekki veiðst í Ölfusá í mörg ár. Fer ef til vill einu sinni enn að þjóna veiðiáráttunni. Yfir landið er metveiði. Yfir 4000 laxar í Þverá/Kjarrá og slíkt hefur aldrei hent áður. Og einnig mokveiði í Rangánum. Annars þarf ég að fara að hugsa um hvað gera eigi við aflann. Þýðingarlaust að hafa fulla frystikistu af fiski. Læt að vísu reykja slatta. Og svo má nú éta laxinn oftar en maður gerir. En einhvernveginn er það svo að nætursaltaða ýsan verður nú oftar uppá teningnum Líklega verður bleiki fiskurinn leiðigjarnari til lengdar. Laxinn er nú oft talinn konungur fiskanna. Og það er merkilegt hvað hann virðist stundum skynsamur en voðalegur auli þess á milli. Þekkt er sagan af mönnunum sem renndu í hyl bunkaðan af laxi. Strax og ánamaðkurinn nálgaðist torfuna ráku stóru laxarnir þá minni í burtu. Það myndaðist geil í torfuna og hvernig sem reynt var tókst ekki að fá laxinn til að taka. Hann hefur líka átt það til að vefja línuna um stein til að hafa frið til að nudda agninu úr sér. Ég reyndi einu sinni svona kúnstir. Ég fékk lax á túpuna í Víkinni. Hagaði sér strax einennilega. Var greinilega ósáttur að vera fastur með þennan fluguskratta í kjaftvikinu. Mér þóttu það firn mikil er laxinn synti að berginu og sló hausnum tvisvar utan í það. Og ætlunarverkið tókst. Túpan hrökk úr honum. Synti svo hróðugur á brott og við horfðum á þetta allt í forundran. Og eins og ég hef sagt áður man maður meira eftir svona fiskum en hinum sem hremma agnið og maður dregur svo að landi. Svona upplifun er ákaflega skemmtileg. Einn þáttur í þessari indælu veiðiveröld. Allar lygasögurnar sem til eru um veiði og veiðimenn eru nefnilega hjóm eitt í samanburði við atburði sem raunverulega gerast. Hösmagi er eins og þið sjáið enn að snudda við heygarðinn. Kvísarveitur ekki afskrifaðar enn og Tangavatn alltaf á sínum stað. Til hamingju með tilveruna, krúttin mín, ykkar Fiskihrellir.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online