Wednesday, September 07, 2005

 

Stigamaður að næturþeli.

Alltaf er eitthvað skemmtilegt að gerast. Eftir mína daglegu útför uppgötvaði ég enn einu sinni að lyklarnir að íbúðinni voru ekki meðferðis. Góð ráð dýr sem fyrr. Lykill í jeppanum en báðir lyklarnir að honum læstir inní íbúðinni. Snyrtilegt og snjallt. En fljótlega örlaði fyrir týru á perunni. Ég hafði sem sé hleypt Raikonen út á svalirnar. Rifa á svalahurðinni. Og þá var stigamennska næsta skref. Alltaf svolítið spennandi að klifra upp stiga. Ég er að vísu voðalega lofthræddur en nokkuð kræfur í stigum. Engan á ég stigann. Klukkan bara rúmlega 5 og allar stigaleigur lokaðar. Þá var ekki um annað að ræða en skipuleggja glæp. Hegningarlagabrot og brot á einu af gömlu boðorðunum. Stela bara næsta stiga sem á vegi mínum yrði. Ég ók brott frá blokkinni. Kom að ónefndu húsi og sá þar þennan líka fína stiga. Stoppaði vagninn og leit vel í kringum mig. Gekk síðan föstum skrefum að húsinu og hugðist grípa þennan forláta grip og hafa á brott með mér. En haldiði ekki að stigaskrattinn hafi verið bundinn fastur við húsið. En glæponar gefast nú ekki upp fyrir smámunum. Tókst að leysa þennan Gordíonshnút og komast með þýfið að bílnum. En skottið á litla Lanca er nú fremur lítið. Kom stiganum fyrir þversum þannig að Lanci var orðinn tvíbreiður. Með lagni komst ég heim og bókstaflega naut þess að koma stiganum fyrir við svalirnar. Þá var bara að hlaupa upp stigann og svipta sér yfir handriðið. Þetta gekk að óskum og Raikonen varð aldeilis forviða á að sjá fóstra sinn koma inn af svölunum. Ég ætla reyndar að skila stiganum aftur á sama stað. Ef glæpurinn kemst upp mun ég verja mig sjálfur. Ég ætla hreinlega að bera fyrir mig svonefndan neyðarrétt. Auk þess er þetta nytjastuldur sem er ekki jafn alvarlegur glæpur og þjófnaður. Mér líður eiginlega alls ekki eins og ég sé þjófur. Finnst afbrot mitt bara vera andskoti sniðugt. Kannski svona voðalega forhertur. En þetta allt saman sýnir að lífið er ekki bara tóm grámygla. Miklu skemmtilegri dagur framundan en hann annars hefði orðið. Og nú verður smíðaður aukalykill sem komið verður fyrir á leyndum stað í litla Lanca. Óska ykkur öllum velfarnaðar á þessum fallega haustdegi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online