Wednesday, September 28, 2005

 

Nýtt gæludýr?

Aftur komið frost. Gott að viðra sig aðeins í kælunni. Ferska loftið gott með morgunvindlinum. Hleypti gæludýrinu út sömu erinda nema það er alveg laust við nikótínfíknina. Settist við tölvuna, kíkti á moggavefinn og las tölvupóstinn. Varð fljótlega var við kisa og þótti hann nokkuð búralegur á svipinn. Við nánari athugun kom í ljós að hann hafði borið inn lifandi hagamús og sannarlega sá ég það nú hvernig hægt er að leika sér eins og köttur að mús. Þar sem mér varð ljóst að þetta nýja dýr yrði varla heimilisdýr hér á bæ króaði ég það af, kom yfir það handklæði og fjarlægði það héðan. Vonandi í eitt skipti fyrir öll. En þau eru búin að vera ámátleg hljóðin í kisa mínum. Hann leitar og leitar og horfir á mig rannsakandi augum. Grunar mig örugglega um græsku. Skil þetta afarvel þar sem ég er veiðimaður sjálfur. Minnir mig á gamla daga. Í sænska húsinu með kettinum Hösmaga hinum horska. Kom inn með skógarþröst og geymdi hann bak við skáp í stofunni. Eftir mikinn eltingarleik við fuglinn tókst undirrituðum að fanga hann í handklæði og hann flaug fljótlega á vængjum sínum út í himingeiminn. En Hösmagi varð afar sár við fóstra sinn. Eftir að ég hleypti honum úr prísundinni á salerninu leitaði hann um alla íbúð. En fuglinn var sem sé floginn. Og fóstri var sökudólgurinn. Hann fyrirgaf að sjálfsögðu. Það er auðvitað mikil dyggð að fyrirgefa. Jafnt vinum sínum sem óvildarmönnum. Það tókust sættir með okkur Hösmaga og við héldum áfram að elska hvorn annan. Sé hann kannski síðar á hinum eilífu veiðilendum. Bestu kveðjur, Fiskihrellir.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online