Friday, September 23, 2005

 

Fýkur yfir hæðir.........

og frostkaldan mel. Haustið er komið.Hitastigið svona í kringum núllið megnið af sólarhringnum.Skæni á pollum allan daginn þar sem ekki nýtur sólar. Menn byrjaðir að velta bifreiðum sínum á Hellisheiði. Einkennilegt hvað margir bílstjórar eru ómeðvitaðir um árstíðirnar á Íslandi. Og svo nota tryggingafélögin tækifærið og hækka iðgjöldin. Þeir vinir, Raikonen og Baltasar Kormákur, byrjuðu sín daglegu áflog snemma morguns. Eru nú að hnusa af kælunni úti. Áhyggjulausir af tilveru sinni og annara. Ég var nú að láta mér detta í hug að renna í Ölfusá í dag. Hún er nú vel tær eftir að kólna tók. En líklega hef ég mig ekki í það. Lágt hitastig en þó ágætisveður. Lokað fyrir veiði 28. september svo það eru síðustu forvöð. Nóg að taka ákvörðun um þetta eftir hádegi.Nú segir Gallup að íhaldið vinni borgina að nýju. Fái 9 fulltrúa, Samfylking 4 og VG 2. Framsókn og frjálslyndir núlleraðir. Sjálfur hef ég trú á að þetta muni breytast. Reyndar ekki viss um að Framsókn ranki neitt við sér enda gott að losna við hana. Hinsvegar er Ólafur Magnússon frjálslyndi hinn ágætasti maður. Umhverfissinni og lætur ekki kúga sig til hlýðni. Mættu vera fleiri slíkir í pólitíkinni. Tíminn leiðir þetta allt í ljós. Vinni íhaldið borgina fá kjósendur annað tækifæri að 4 árum liðnum. Baugsmálið tröllríður öllum fjölmiðlum enn. Og hinn eftirlýsti ríkislögreglustjóri náðist í Þýskalandi í gær. Voðalega sár yfir því að menn skuli gagnrýna hann og störf lögreglunnar. Eins og við mátti búast. Enda liggur fyrir að þessi rannsókn hófst einungis vegna kæru Jóns Geralds Sullenbergers. Kannski tilviljun að lögmaður hans á þeim tíma var Jón nokkur Steinar Gunnlaugsson, einkavinur Davíðs Oddssonar. Sá sem nú situr í hæstarétti sem næstur mun tala í þessu máli. Sér væntanlega sóma sinn í því að víkja úr dómnum vegna fyrri aðkomu að málinu. Svo er þar líka Ólafur Börkur. Hann og Davíð eru systkinasynir. Það hlýtur að vera alger tilviljun að 2 nýjustu dómarar réttarins skuli báðir svo nátengdir nýja yfirnagaranum. Eða hvað? Spyr sá sem ekki veit. Mér telst nú svo til að þetta sé pistill nr. 80 frá því ég skrifaði nokkur orð í Lögmannasundi fyrir jólin í fyrra. Reikna nú ekki með að margir lesi þessi skrif. Held því sjálfsagt áfram enn um sinn. Meðan ég hef gaman af því sjálfur og hef ekkert þarfara að gera. Með kveðju úr morgunkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Allt er þetta lesið í Skotaríki þótt líði vegna netleysis eitthvað á milli og þá vinnur maður upp glataðan tíma með langlestrum. Nú er hins vegar netið loksins komið og langlestrar fyrir bí. Jibbí!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online