Tuesday, September 20, 2005

 

Frændsemi.

Pjetur Hafstein Lárusson leit við hjá mér í dag. Bauð í mat á laugardag og var með plön um ferð í Brynjudal í Kjós. Við erum frændur. Af kyni Lárusar G. Lúðvígssonar. Á Ingunnarstöðum bjó afabróðir minn, Lúther Lárusson. Sé alltaf eftir að hafa ekki heimsótt hann meðan enn var tækifæri til þess. Mun hafa verið allsérstæður karakter sem fór sínar eigin leiðir. Ætlaði til dæmis einu sinni að skjóta verðandi tengdason af því honum líkaði ekki við hann. Það tókst reyndar ekki og urðu menn fegnir. Nema Lúther að sjálfsögðu. Við Pjetur hyggjumst rannsaka þetta og fleira í Brynjudal. Ég þekki mjög fáa frændur mína úr þessari ætt. Enda er mér ættfræðin ekki í blóð borin. Læt Svein bróður minn um þetta. Ég veit svona hvað langafar mínir hétu og það hefur dugað nokkuð vel hingað til. Hins vegar er alltaf gaman að frétta um kynlega kvisti í ætt sinni. Og margt getur nú skondið skeð. Einhverntíma fyrir mörgum áratugum tókust tveir menn á á stjórnmálafundi í höfuðstaðnum. Endaði með því að annar henti hinum út úr húsinu. Þeir þekktust ekkert og vissu ekki að þeir áttu eina sameiginlega systur. Hana Klöru blessaða, móður mína sælu. Hálfbræður hennar en allsóskyldir innbyrðis.Fjári sniðugt bara. Móðir mín hélt lengst af að hún væri elst systkyna sinna. Komst þó að því að systir hennar sem hún kynntist á efri árum var tveim mánuðum eldri en hún. Karl afi minn líklega verið fullfjölþreifinn veturinn áður en þær fæddust. En svona var nú leikið í gamla daga. Og líklega spila menn nú af fingrum fram í þessum málum ennþá. Líka bara fjári sniðugt. Eða hvað? Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online