Saturday, September 03, 2005

 

Urriðaskelfir.

Skrifari þessara pistla gengur undir ýmsum nöfnum. Skáldið í Skotlandi er höfundur nafnanna Laxaspillir og Fiskihrellir. Eftir síðustu Veiðivatnaferð kom undirrituðum í hug nafnið Urriðaskelfir. Fannst það mjög viðeigandi eftir vel heppnaða ferð. Líst ykkur ekki bara vel á nafnið? Það er á mörkunum að mér takist að skrifa þennan pistil. Raikonen með áhuga á fingraleikfiminni á lyklaborðinu.Við setjumst svo að sjónvarpsskjánum í dag og fylgjumst með finnanum nafna hans stinga hina af í kappakstrinum. Nú eru endanleg vertíðarlok runnin upp hjá Urriðaskelfi í sumar. Nokkuð sáttur við afrakstur sumarsins. 18 laxar, 12 Veiðivatnaurriðar, 4 sjóbirtingar og slatti af Tangavatnsurriða.Það er að vísu búið að nefna við mig veiðiferð í Kvíslarveitur. Sjáum til. Stundum er september rólegur og góður mánuður veðurfarslega. En það er allra veðra von á hálendinu á þessum árstíma. Reyndar í öllum mánuðum ársins. Einu sinni varð Sprengisandur kolófær í júlímánuði vegna snjóa. Veðrið var alveg meiriháttar í gær. Logn og sól og þokkalegt hitastig. Hafði það náðugt heimavið. Horfði aldrei þessu vant á fótbolta í sjónvarpinu. Íslendingar byrjuðu vel gegn Króötum en voru svo teknir í bakaríið í seinni hálfleik.Mér detta stundum í hug orð kerlingar þegar ég horfi á fótbolta. Af hverju láta þeir ekki hvern mann hafa sinn bolta svo þeir þurfi ekki sífellt að vera að rífast um þennan eina? En lifið gengur sinn gang og við þurfum áfram brauð og leiki. Bestu kveðjur frá Raikonen, Urriðaskelfi og öllum hinum, ykkar Hösmagi,

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online