Tuesday, September 20, 2005

 

Miðnæturmessa.

Klukkan bara rúmlega miðnætti. Raikonen gafst ekki upp við uppvakningar sínar. Vantaði vatn í skálina sína. Harður húsbóndi meðan ég læt hann komast upp með það. Enn kominn miðvikudagur og tíminn líður með þessum stjarnfræðilega hraða. Gerist alltaf þegar nóg er að starfa í vinnunni. Svo verður áfram út vikuna og peningarnir hreinlega hlaðast upp hjá vinnuveitendum mínum. Það eru sem sagt ekki nagaðir þar blýantar þessa dagana. Ákaflega ljúft. Meira að segja pönnukökur í gær. Ótrúlega gott fæði nýbakaðar pönnukökur. Minnir mig á einn Veiðivatnatúrinn fyrir nokkrum árum er við skáldið ásamt nafna mínum, lambakónginum hans afa, lukum næstum við 63 stykki á leiðinni inneftir. Þær smökkuðust líka dásamlega pönnukökurnar hennar Grétu. Hér ríkir nú kyrrð og ró. Nánast logn og snjórinn sem lagðist hér niður í gær allur horfinn. Enn mánuður í fyrsta vetrardag samkvæmt almanakinu. Gráni minn á stalli sínum í bílskúrnum gljáandi hress að utan og innan eftir veruna hjá Bónfeðgum í gær. Átti þessa hreingerningu skilið eftir dygga þjónustu í sumar, m.a. 5 ferðir í Veiðivötn. Hösmagi ehf. sér um sína. Og svona í framhaldi af blýantsnagi þá flaug mér í hug vísa sem ég tileinka nýjasta yfirnagaranum í Seðlabanka Íslands.

Davíð er slyngur og slóttugur maður
hann slæmir krumlum í allt sem hann getur.
Í bankanum mikla hann verður í vetur
og vermir þar gullið og unir sér glaður.

Og hvað skyldi svo þessi nagari hafa í eftirlaun þegar þar að kemur. Svona kannski 10meðallaun erfiðismannsins. Svona er nú jöfnuðurinn og réttlætið. Sérlegar kveðjur til sænska nafna. Gott að efri vörin skuli komin í lag. Og megi ykkur nú dreyma vel, krúttin mín. Ykkar einlægur Hösmagi

Comments:
Góðar kveðjur til baka, kæri nafni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online