Thursday, September 08, 2005

 

Kötturinn sem hvarf.

Eftir stigamennskuna í fyrrinótt hleypti undirritaður kettinum Raikonen út. Geri það nú flesta morgna og hann skilar sér eftir svona klukkutíma. Ég þurfti til starfa klukkan 9 og þá bólaði ekki á kisa. Ég skildi eftir opið svo dýrið kæmist inn. Lauk við kaupsamninginn og skrapp heim um hálfellefu. Enginn köttur heima. Lauk við næsta kaupsamning og kom heim rétt fyrir 12. Og enn var kisi ekki kominn. Ég lét skrá hann í fyrradag og hann fékk númerið 183. Átti eftir að setja það um háls hans og nagaði sjálfan mig í handarbökin. Ég varð að fara upp að Vaðnesi að skoða sumarhús eins og ég hafði lofað. Kom þaðan uppúr 2. Þegar ég renndi í hlað sýndist mér vera einhver hreyfing í forstofunni. Og þegar inn var komið sá ég 2 ketti. Raikonen galvaskur með litla læðu hjá sér. Hann hafði sem sagt verið á kvennafari allan morguninn. Eða að læðupokast öllu heldur. Ég varð nú að sjálfsögðu glaður að sjá dýrið mitt á ný. Og fyrirgaf því líka úr því að þetta var ástæðan. Kom litla kvendýrinu út sem virtist á aldur við Raikonen. Kisi fékk sér vel í svanginn og var síðan dasaður það sem eftir lifði dagsins. Hann liggur hér fram á lappir sér og bíður örugglega eftir nýju tækifæri til að læðupokast úti. Með hálsól og númerið 183.
Vinnuvikunni að ljúka og yndislegt helgarfrí framundan. Ætla að láta veður ráða gerðum mínum um helgina. Langar inní Landmannalaugar og kannski með viðkomu í Dómadalsvatni. Líka nóg að gera hér heima. Hösmagi, hress sem ætíð áður.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online