Saturday, September 17, 2005

 

Sanngirni.

Aldrei hefur mér dottið í hug að leggja þá Halldór formann og Sigga sænska að jöfnu. Þar er að sjálfsögðu reginhaf á milli, Sigurði Ólafssyni í hag. Ég lenti reyndar í því fyrir nokkrum misserum að verða allt í einu skoðanabróðir Davíðs, verðandi seðlahirðis. Það var þegar mikill fjöldi ungmenna var sviptur sjálfræði sínu með hækkun sjálfræðisaldurs. Tveir heilir árgangar.Þetta líkaði okkur báðum stórilla. Þarna var kannski forræðishyggjan að verki. Til að auðvelda barnaverndarstofu að taka unglinga sem lent höfðu í vandræðum að koma þeim undir manna hendur var farin þessi leið. Hvers átti meirihluti þessarar ungu og glæsilegu æsku landsins að gjalda? Þetta var bara löðurmannlegt. Engum er nú alls varnað. Jafnvel ekki Dóra og Davíð. Furðulegt er að fylgjast með vandræðaganginum út af hugleiðingum um framboð íslendinga til setu í öryggisráði SÞ. Auðvitað er þetta tómt prump. Nær að verja peningunum í annað nærtækara. Halldór að enda við að lýsa yfir framboði fyrir árin 2009-2010. Davíð ekki samstíga, Guðni varaformaður ekki heldur. Og meira að segja Hjálmar Árnason, einn þessara sauðtryggu fylgisveina Halldórs, er líka efasemdarmaður. Það er yfirgengilega fáfengilegt markmið að eyða svo sem einum milljarði til að fá ef til vill að monta sig í eitt ár í öryggisráðinu. Stórveldin ráða þar öllu svo sem jafnan áður. Ef eitthvað er samþykkt þar sem ekki hentar Bandaríkjunum eða öðrum stórþjóðum er samþykktin einfaldlega sniðgengin. Þarna hefur Einar Oddur alveg laukrétt fyrir sér. En auðvitað hangir öll Samfylkinginin í rassinum á Halldóri. Og það hangir sjálfsagt á spýtunni von um að fá að spóka sig í makindum hjá kjaftaskjóðunum síðar. Ef við ætlum endilega að eyða þessum peningum á alþjóðavettvangi skulum við nota þá í þágu mannréttinda í heiminum. Þar er ærið og verðugt verkefni að fást við.
Hvenær skyldi koma að því að fagmaður verði skipaður seðlabankastjóri? Enn eitt hneykslið nýriðið yfir. Í bankanum er nú bara einn bankastjóri sem getur talist fagmaður. Ágætur drengur, sem heitir Eiríkur Guðnason. Jón Sigurðsson svona á mörkunum. Fyrst og fremst framsóknarmaður. Og dettur einhverjum í hug að Davíð Oddsson verði allt í einu hlutlaus maður. Bara rétt si svona. Auðvitað ekki. Gerir bara það sem honum þóknast eins og jafnan áður og nagar blýanta fyrir 1,4 millur á mánuði. Allt er þetta purkunarlaus misnotkun valds. Og því miður lítil von um breytingar á næstunni. Hef sannarlega skömm á þessu. Ykkar hösmagi, með Raikonen sofandi á skrifborðinu.

Comments:
Hjúkk! Gott að losna undan samlíkingunni. Ég var svei mér þá farinn að svitna á efri vörinni þarna á tímabili, alveg eins og Dóri.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online