Tuesday, September 27, 2005

 

Fnykur.

Baugsmál efst á baugi enn um sinn. Farsinn tekur daglega á sig nýjar myndir. Fólk ber harm sinn á torg. Kona, einstæð 3ja barna móðir, sem átti 200 milljónir flæktist inní mestu skítafjöldkyldu heimsins og varð bara allt í einu gjaldþrota. Hefndarhugurinn stjórnar framhaldinu. Og tölvupóstur Jóns og Gunnu er galopinn öllum sem hann vilja lesa. Launráð hér og launráð þar. Það er auðvitað megnasta skítalykt af þessu öllu. Innviðir viðskiptaþjóðfélagsins koma í ljós. Baráttan um auðinn. Í þeirri baráttu er allt leyfilegt. Og yfirnagarinn ber enn hausnum við steininn. Síðast í gærkvöldi. Baugur gín yfir öllu. Verslun og fjölmiðlum. Ég hélt að við ættum ríkisútvarpið ennþá. Og Morgunblaðið á lífi líka. Ég þekki þá Baugsfeðga ekkert. Örugglega harðir naglar í viðskiptum. Allt of harðir fyrir gamla Kolkrabbann sem aldrei hefur þolað samkeppni af nokkru tagi þó á yfirborðinu hafi verið talað fjálglega um einkaframtak og viðskiptafrelsi. En almenningur kaupir auðvitað kaffi og mjólk þar sem þessar vörur eru ódýrastar. Ekki lái ég honum það og geri það að sjálfsögðu líka. Nornaveiðarnar munu halda áfram a.m.k. enn um sinn. Sá sem hefur setið einn að kökunni þolir ekki að aðrir fari að narta í hana. Við fylgjumst með framvindunni. Hér sit ég og get ekki annað sagði Marteinn Lúther forðum.
Raikonen úti að hnusa af golunni. Orðinn köttur og þó alls ekki hættur að vera kettlingur. Flískúlurnar enn afskaplega skemmtilegar. Elskar þær heitar enn önnur leikföng. Verður hálfsárs á föstudaginn. Hrútur eins og Helga Soffía. Og hvernig er það annars. Er litla Edinborgarfjölskyldan alveg hætt að blogga? Með bestu kveðjum frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online