Thursday, September 01, 2005

 

Þar sem áin litla rennur.

Þegar ég ók yfir Uxahryggi í gærmorgun fór mig að gruna að ekki væri mjög mikið vatn í litlu ánni sem rennur um Lundarreykjadal. Og það reyndist líka svo. Þegar ég kom að Myrkhyl og fór að leita að strengjunum mínum góðu fyrir ofan hann voru þeir einfaldlega ekki til staðar. Þar sem ég veiddi 3 laxa fyrir 6 árum var nú bara ca. 10 cm vatn. Og eftir að hafa skyggnt hylinn af brúnni hvarf nánast öll von um fisk. Gaf þessu samt klukkutíma í góða veðrinu. Sneri síðan til baka og hélt að Laugarfossi. Geysifallegur staður og svolítið dýpi. Þar virtist bara vera ein afæta. Og Illakvörn nánast galtóm. Ég tók þessu með jafnaðargeði. Stoppaði þarna í hálftíma og hugleiddi svo að snúa aftur til Árnessýslu. Það var þó einn staður eftir. Englandsfoss var enn á sínum stað og undir fossinum hylur. Ég kom að þessum fallega fossi klukkan hálfníu. Kastaði ánamaðki í fossinn. Og maðkur var varla lentur þegar eitthvað byrjaði að eiga við hann. Þarna er mikið um afætur. En viti menn. Það var togað nokkuð fast og " hann var á" Brátt lá 6 pundari á bakkanum. Fiskihrellir yfirsig sæll með þessa veiðiferð þrátt fyrir vatnsleysið. Nú var bara að beita aftur. Og aftur var hann á. Nokkuð mjósleginn 4ra pundari. Hunterinn glaðvaknaður í sportveiðimanninum. Sá strax bunka af laxi á bakkanum. En nú varð hlé á tökunni. Ég settist á stein og horfði heillaður á vatnið í fossinum steypast niður í hylinn. Þessi fallegi haustdagur hafði sannarlega gefið gömlum veiðimanni mikið. Fljótlega óð ég yfir ána litlu neðar. Hugðist reyna hægra meginn í fossinum. Og í fyrsta kasti tók sá þriðji. Hunterinn hafði nú náð yfirhöndinni. Og þegar sportveiðimaðurinn er þannig yfirliði borinn verða stundum óhöpp. Græðgin varð mér að falli. Ég hreinlega reif út úr fiskinum. Fallegum fiski sem var orðinn örlítið bleikur á hliðinni. Svona 6 pundari. Ég sá hann synda út í hylinn. Ég óð aftur yfir ána. Fékk mér normalbrauð með osti, hallaði aftur sætinu í Grána og steinsofnaði. Svaf í klukkutíma. Ákvað að reyna aftur við þann bleika. Og ég sá hann fjórum sinnum. Hann hafði lært sína lexíu og lét ekki blekkjast á ný. Og laxaspillir hélt heim á leið. Afar ánægður með þennan indæla morgunn. Kom við í fiskbúðinni. Á þar góða kunningja sem er flínkir að flaka lax. Sæki svo flökin í dag og þau fara í reykinn. Skipti um föt og hélt til starfa. Mikil vinnutörn í vikunni og salan vel á annaðhundrað milljónir. Hlakka til vikulokanna síðdegis. Og mér kæmi ekki sérlega á óvart þó Fiskihrellir yrði enn við sama heygarðshornið í fyrramálið. Þykist vita um nokkra laxa í Víkinni. Ekki myndu bjartsýnisverðlaunin spilla þessu sumri. Og eins og fisksæll maður segir: Bið að heilsa ykkur, krúttin mín. Ykkar Hösmagi. Með Raikonen sofandi fram á borðið.

Comments:
Helvítis fjöldamorð eru þetta!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online