Sunday, January 27, 2008

 

Sálarbót.

Hlákan kom eins og veðurvitarnir höfðu lofað. Notaði tækifærið og kláraði að moka af svölunum. Svalaganginum framan við íbúðina líka. Örugglega gott fyrir lungun því snjórinn var þungur á skóflunni. Læt veðurguðina um afganginn. Því miður mun þetta veður vara stutt. Spáð hörðu frosti næstu daga. Þó það sé nú allhvasst lét Kimi sig hafa það að viðra skott sitt og sleikir það nú af ákefð. Eitt þrifnasta kvikindi sem ég hef kynnst. Í dag kveður handboltinn að sinni. Mér fannst nú ekki mjög leitt að sjá Króata vinna Frakka. Hinsvegar voru þeir Adolf Ingi og Ólafur meðreiðarsveinn hans báðir óþolandi leiðinlegir. Dónaskapurinn í garð Króata með endemum. Hinn afarskrautlegi markvörður Króata, Sola, er sennilega hættur í íþróttinni. Stundum með grænt hár en hinn daginn rauðgult. Afar eftirminnilegur þegar Króatar urðu heimsmeistarar fyrir nokkrum árum. Mér finnst nú alltaf vænt um Dani. Samt hélt ég að venju með Þjóðverjum í gær. Óska Dönum til hamingju með að hafa þó a.m.k. tryggt sér silfur. Fyrir unnendur handboltans er helgin ein samfelld veisla. Allar veislur taka enda og það er gott. Mér varð nú lítið úr verki í gær vegna handboltans. Lauk þó við leiðinlegasta heimilisverkið þ.e. að skipta um rúmföt. Skúringar og uppvask hátíðin sjálf miðað við það.
S.l. vika var viðburðarík. Feigðarmerkin á nýja meirihlutanum í Reykjavík strax augljós. Reykjavík var nú lengst af höfuðborg íhaldsins. Höfðu oftast 10 borgarfulltrúa af 15. Það var því mikið afrek að fella það í fyrra sinnið. Og jafnvel enn meira í það seinna. Ég hef áður minnst á þátt ISG í því og hann verður aldrei frá henni tekinn. Ég vona að VG og SF nái hreinum meirihluta næst. Mun einhver sakna frjálslyndra og framsóknar? Varla margir. Verst ef þessum meirihluta tekst að fremja enn frekari afglöp í samgöngu- og skipulagsmálum áður en hann hrökklast frá. Þessvegna væri best að hann gerði það sem fyrst. Það dettur engum í hug að friður og sátt sé hjá íhaldinu í borginni eftir það sem gerst hefur síðan í haust. Hjaðningavígin byrjuð um leið og valdaskiptin urðu á fimmtudaginn. Vonandi nær íhaldið í borginni aldrei vopnum sínum á ný. Það er nú rúið trausti margra sem hafa kosið það í blindni alla tíð. Það er jákvætt eitt og sér. Nóg af borgarpólitík í dag. En ég er ekki alveg búinn með framsókn. Guðni gæti verið hálftimbraður eftir Selfossþorrablótið í gærkvöldi. Læt hann því í friði í dag.
Symfónía vindsins sem nú gnauðar hljómar dásamlega í eyrum. Sannarlega "gott vont" veður í dag. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online