Monday, January 28, 2008

 

Kuldatíð.

Veðrið er nú ágætt hér í morgunsárið. Smáfrost og vindurinn með rólegra móti. Ef við sleppum við snjókomu næstu daga er það gott. Búist er við að frostið nái strax 2ja stafa tölu á morgun. Gamla kínverska loðhúfan mun koma sér vel næstu daga. Þó Hösmagi haldi nú hári sínu sæmilega enn, þá veitir ekki af að verja hausinn ef spáin gengur eftir. Jafnvel búist við 15-20 stigum um næstu helgi. Þorrinn byrjar því eins og svo oft áður í gamla daga. Þetta er þó orðið svo fátítt hin seinni ár að aðdáandi birtunnar og ylsins verður að standa vaktina. Við höfum góða hitaveitu hér og lagnir nýlegar í götunni.Gólfhiti í bílskúrnum svo græna þruman er notaleg á morgnana. Við þraukum þessa tíð af okkur. Hlákan kemur örugglega innan tíðar. Ég er nú ekki að biðja um 17 gráður eins og voru í Barselóna í gær. Samkvæmt Mogganum sem aldrei lýgur. Svona 4-5 væri ágætt.
Ég var að vinna nokkuð stórt, og að sumu leyti snúið verðmat í gær. Verðmöt fasteigna eru nokkuð fyrirferðarmikill þáttur í starfinu. Oftast skemmtilegur enda heilmikil ferðalög tengd honum. Hér var um að ræða land, húseignir og námaréttindi. Það spillti heldur ekki fyrir að viðkomandi á hlutdeild í Holta- og Landmannaafrétti. Mér varð hugsað til Rauðagígs, Ónefndavatns og annara yndislegra staða í Veiðivötnum.Erfitt að tengja þá við peninga. Þar mun líka verða kalt á næstunni. Urriðinn hefur lifað það af í árþúsundir og mun gera það áfram. Þegar ég kom þaðan síðast var ég þreyttur. Ánægður að venju. Næstu dagar og vikur urðu tími vangaveltna og hugleiðinga um lífið. Svolítið tregablandinn og ljúfsár. Innistæðan í banka reynslunnar jókst aðeins. Ekkert er sjálfgefið en hugarfarið skiptir jafn miklu og jafnan áður. Nú eru rúmir 5 mánuðir liðnir, nýtt ár runnið upp og ég bíð vorsins galvaskur. Það kemur þó nú sé napurt. Við Kimi báðir hressir í dag. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online