Friday, January 25, 2008

 

Valdsmenn Íslands.

Minn gamli lærifaðir, Sigurður Líndal, prófessor emeritum, ritar grein í Fréttablaðið í dag um nýlega ráðningu héraðsdómara. Staðan var veitt af settum dómsmálaráðherra sem jafnframt er fjármálaráðherra. Þið vitið öll hver hann er. Það hefur enginn dregið í efa að samkvæmt reglunum hefur ráðherrann skipunarvaldið. Sigurður veit það manna best. En hann upplýsti vel í greininni hvernig ráðherrann þverbraut önnur lög í leiðinni. Það tók ráðherrann nokkra klukkutíma að meta hæfni umsækjenda en síðan 3 vikur að reyna að rökstyðja hana. Sem betur fer er málinu ekki lokið. Það er nú komið til umboðsmanns Alþingis og gæti endað með dómstólaleiðinni.Ég vona sannarlega að það fari þá leið. Þetta er með þvílíkum endemum að ekki nokkru tali tekur. Persóna Þorsteins Davíðssonar og ætterni er algjört aukaatriði í þessu máli. Ég óska honum sannarlega farsældar í starfi. Virtist vera hinn viðkunnanlegasti maður í viðtali í sjónvarpinu um daginn. Valdhroki ráðherrans er ekki á hans ábyrgð. Mér finnst frábært að minn gamli skólafélagi úr lagadeildinni, Guðmundur Kristjánsson, sitji ekki þegjandi undir þessum vinnubrögðum. Annar þeirra sem talinn var best hæfur í stöðuna.Grein Sigurðar er t.d. á visir.is í dag.
Það er augljóst að ef ég ætla að halda þessari bloggiðju áfram þarf ég að setjast á skólabekk á ný. Kannski myndi nú ein handbók duga. Þær eru ansi flottar sumar síðurnar á moggablogginu. Linkar, myndir og allskonar kúnstir. Ég kann ekkert af þessu. Blaðra bara og blaðra eftir hendinni. Það má líka senda mér tölvupóst ef einhver vildi gefa mér smáinnsýn í þessa veröld. Nú um stundir er betra að senda hann á siggi@bakki.com. Sé hann líka á hosmagi@simnet.is en get ekki svarað þaðan eins og er.
Það haugaði niður þessu hvíta í gær. Nánast allt kolófært í morgun nema aðalgöturnar hér. Græna þruman prjónaði sig auðveldlega gegnum nýja skaflinn sem hafði myndast við bílskúrinn. Bráðum verð ég líklega að leggjast á bæn. Reyndar spurning um hvort það þýðir nokkuð eftir að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni á dögunum. Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ja, aldrei hef ég nú komist langt í hönnunarfræðunum þótt með háskólapróf í umræddri vefhönnun sé, en sigurður fáfnisbani ætti að geta lumað á einhverjum ráðum. ekki rétt, siggi?
 
Já, ég beiti nú mest þeirri aðferð bara að fikta mig áfram en ég skal glaður veita ráðgjöf um það ofurlitla sem ég kann.
Varðandi úrsögn úr Þjóðkirkjunni þá bið ég þig hjartanlega velkominn í hóp okkar sem nennum ekki að borga undir íhaldssama bullið í Herra Karli og stofnun sem mismunar fólki eftir kynhneigð.
 
Aurarnir renna nú bara beint inn í guðfræðideildina fyrir vikið, svo þetta er spurning um að mennta fleiri presta og senda á kirkjuráðstefnur og kórfyllerí einhvers staðar í útlöndum fyrir alla peningana eða ausa fé í messur. Hvort tveggja slæmt.
 
Það er nú reyndar rétt að ég hef aldrei kunnað við Kalla bisp. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég hef aldrei verið sannfærðari en nú um að það á að aðskilja kirkjuna frá ríkisvaldinu. Endanlega og nú þegar. Og stundum veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég vil ekki vera í sama flokki og Jón Valur Jenssson. Á sama hátt yfirgaf ég VG vegna Jóns Hjartarsonar.Óheiðarleiki og ofstæki hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér. Bestu kveðjur til ykkar fóstbræðra og þeirra sem ykkur þykir vænt um.Hösmagi, eldhress á sunnudagsmorgni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online