Wednesday, January 23, 2008

 

Rætinn sannleikur.

Í dag, 24.janúar 2008, er góður dagur. Þó klukkan sé einungis tæplega 6 að morgni erum við Kimi á fótum. Ég að hella í mig morgundögginni en hann hreiðrar um sig á handklæði inní einum svefnherbergisskápnum. Yngri systir mín á afmæli og fær mínar bestu kveðjur. Það eru nákvæmlega 2 ár í dag frá því ég keypti grænu þrumuna.Rétt búið að tilkeyra hana eða 19.500 km. Hún er nú á stalli sínum í 24 gráðu hita en frostið úti 4 stig. Veður kyrrt, en enn hefur aðeins aukið við snjóinn. Hláka á sunnudaginn bætir það upp. Það er þó ekki gleðiefni við daginn að nýr borgarstjórnarmeirihluti verður myndaður í höfuðborginni. En þar er smáuppbót líka. Björn Ingi ætlar að segja af sér. Og ástæðan? Óvenjurætnar persónulegar árásir sem vakið hafa þjóðarathygli. Fyrrverandi vinur og samherji sannaði með illa fengnum gögnum að Boss bindin, jakkafötin, skyrturnar og allt hitt voru greidd af flokknum hans. Allt til einskis því þetta dót er orðið allt of lítið á hann. Bindin orðin of stutt líka. Jafnvel von á fyrirspurn frá skattinum. Mikið djöfull getur sannleikurinn stundum verið rætinn. Svona var þetta líka með strákskrattann í Bykó sem þótti einkennilegt að vörur merktar Þjóðleikhúsinu væru sendar til Vestmannaeyja.Það var voðalega rætið líka.
Svo vonar þessi hugumprúði, vel klæddi riddari, að framsóknarflokkurinn nái að efla samstöðuna og rétta úr kútnum. Guðni mun sjálfsagt taka undir þetta. Nýbúinn að lýsa fullu trausti á riddarann og senda fyrrverandi vininum og þingmanni flokksins kaldar nótur. Högg undir beltisstað eins og svo oft áður. Hvenær skyldu sumir menn átta sig á því að framsóknarflokkurinn rotnar innan frá en ekki útfrá pólitískum andstæðingum?
Þegar stórt er spurt verður stundum erfitt um svör. Það hlýtur þó að vera huggun harmi gegn hjá dressmanni, að hann hefur örugglega samúð mikla frá Halldóri og Finni.

Ég fór uppí Bláskógabyggð í gær. Þar var snjór. Ég var heppinn að velta ekki Landkrúser jeppanum fasteignasölunnar. Slapp með skrekkinn. Tel mig þokkalegan bílstjóra og jeppinn ágætur og traustur vagn. Eftir 3ja tíma basl tókst góðum manni að bjarga málunum.Ég og krúserinn báðir heilir. Það stóðst á endum þegar heim kom að leikurinn við ungverja var að byrja. Ég hugsa að Hreiðar Guðmundsson sé búinn að tryggja sér aðalmarkvarðastöðuna í liðinu. Eftir allar hremmingarnar undanfarna daga er smávon um miðjusæti. Góð uppbót líka.

Ég hugsa fallega til ykkar í dag og við Kimi sendum kveðjur til vina okkar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það kemur að því að maður vex upp úr stuttubuxunum sínum. Ég sá umræddan stjórnmálamann í Worldclass fyrir jólin og svo aftur í Kringlunni, gott ef það var ekki í Herragarðinum. Verst bara fyrir kauða hvað fjármálamarkaðurinn er hauslaus þessi misserinn . . . Ætli losni ekki einhver bankastaða bráðum, eða þróunarverkefni um uppbyggingu í Úganda eða eitthvað? Þar fá menn sannarlega Landcruiser og góða risnu til að spara fyrir bindum, skyldu flokkssjóðir tæmast. Bestu kveðjur úr blíðviðrinu hér, þótt heldur svalara sé í dag en fyrri daga. Gott samt, Sössinn
 
...ekki Landcruiser: Hummer! Hummer sem leggja má í fatlaðrastæði.
Já, það jákvæða í þessu pólitíska svartnætti öllu er kannski einmitt það að nú er hægt að mynda hóp í borgarstjórn sem maður er raunverulega stoltur af: engir vandræðalegir meðreiðarsveinar lengur, þeir BIH og ÓFM.
Kveðjur frá Köben til Selfoss og Barselóna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online