Sunday, January 20, 2008

 

Vetrarríki.

Það er langt síðan ég hef séð svona mor af snjótittlingum eins og nú flögra hér um.Þetta er svona svipað og á bolluárunum þegar hann byrjaði að snjóa í október. Og reyndar síðar einnig. Þegar ég bjó á Austurvegi 19 í kringum 1990 fóðraði ég marga fugla. Snjótittlingar í meirihluta. Svo komu starrar, hrafnar og jafnvel mávar og dúfur. Og fóðrið var korn, brauð og matarafgangar. Það var oft atgangur við krásirnar og gaman að horfa á þessa baráttu um brauðið. Því verður ekki neitað að það er fallegur dagur í dag. Glampandi sól og frostið bara 2 stig. En það er leiðinlegt göngufæri nema fyrir skíðamenn. Ég brá mér því á grænu þrumunni í Nóatún að ná mér í sviðakjamma og hrútspunga. Hvorttveggja gott með lífrænt ræktuðum íslenskum kartöflum. Át þetta undir Silfri Egils þar sem einn framsóknarmaðurinn lýsti fyrrum stórvini sínum, Birni Inga. Þar var af nógu að taka. Lokaorð þessa fyrrum þingmanns framsóknar voru þau að hann væri með mörg hnífasett í bakinu frá þessum núverandi borgarfulltrúa framsóknar. Uppdráttarsýkin í þessum gamla flokki tekur sífellt á sig nýjar myndir. Ég hef oft sagt það áður að þessi flokkur væri á grafarbakkanum. Ég spái því að það verði fáir viðstaddir hina óumflýjanlegu útför hans. Kannski dregst hún þó fram á vorið þegar mestu snjódyngjurnar verða horfnar.
Ég ligg nú aðallega í leti í dag. Heilsan ágæt en hálfgerður doði yfir gömlum karli sem líkar ekki við mikinn snjó. Ætla nú að fylgjast með lokaleiknum í riðlinum okkar á eftir. Ég hef ekki mikla trú á að við leggjum frakka þó við höfum leikið þá grátt í fyrra. Það hefur lengst af verið þannig að við getum ekki spilað heilan leik almennilega. Eins og sannaðist í gær þó okkur tækist að vinna slóvaka. Og ég verð nú bara að segja það að mér finnst nýja baráttulagið hans Valgeirs svona heldur klént.Kannski alveg smekklaus maður í tónlistinni. Við sjáum hvað setur. Bestu kveðjur til Barselóna frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Nei, ekki tókst okkur að leggja Frakkana. Það virðist nú reyndar heldur lítið spunnið í þetta lið okkar í dag. Ekki að ég hafi náð að horfa á þetta en maður fylgist með fréttunum. Fremur glatað.

Allt gott í Barselóna annars, helst að bloggletin hrjái mann. Er heilsan annars orðin góð aftur?

Bestu kveðjur, Sölvi
 
Frakkar voru betri en við á öllum sviðum. Ætli við lendum bara ekki 12. sætinu. Ágætt veður núna og hitinn kominn yfir frostmarkið. Heilsan ágæt þó ég viti af þessu. Og það mætti bæta aðeins úr bloggletinni. Bestu kveðjur, pápi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online