Wednesday, December 05, 2007

 

Herrar og frúr.

Getur kona verið herra? T.d. ráðherra. Eins og er er það nú þannig. Mér finnst nú ekkert óeðlilegt við það. Herra í þessari merkingu er bara sá sem stjórnar. Ræður, drottnar. En mér finnst líka vel koma til greina að breyta þessu ef konum finnst þetta plaga sig. Það eru komnar fram ýmsar tillögur. Hér áður fyrr voru það aðeins 2 embættismenn þjóðarinnar sem varð að nefna herra þegar þeir voru ávarpaðir. Herra forseti og herra biskup. Engum datt þó í hug að kalla Vigdísi herra forseta. Vonandi fáum við konu sem biskup næst. Þá mun heldur engum detta í hug að kalla hana herra. Mér finnst orðið frú alls ekki eiga við um þann sem er í ríkisstjórn. En stýra finnst mér ágætt. Utanríkisráðstýra hljómar ekki illa. Eða það sem er jafnvel enn betra. Utanríkisráðfreyja. Karlarnir yrðu ráðherrar áfram en konurnar yrðu ráðstýrur eða ráðfreyjur. Þetta myndi venjast á nokkrum mánuðum. Að nokkrum árum liðnum yrðu allir sáttir og teldu þetta eðlilegt og sjálfsagt. Ég er reyndar óttalegt íhald inn við beinið á sumum sviðum þó ég hafi alltaf verið til vinstri í pólitíkinni. Illa við breytingar breytinganna vegna. Tel mig jafnréttissinna. En fólk er ekki sammála um leiðir í baráttunni. Launamunur eftir kynjum er gjörsamlega óþolandi hér á landi. Það er óskiljanlegt hvað hægt miðar í þeim efnum. Ranglætið flestum augljóst en það vantar slagkraft frá fleiri körlum til að ná þessu fram. Hinsvegar hef ég aldrei skilið kvótasetninguna sem eru ær og kýr sumra í þessari baráttu. Það er af því að konan er líka maður. Homo sapiens. Því verður ekki breytt og það mun verða svo. Hún gengur áfram með börnin. Við karlarnir munum ekki gera það. Þó við fegnir vildum. Öfgarnar eru alltaf til ills á öllum sviðum. Þessvegna skulum við hugsa okkur vel um í jafnréttisbaráttunni. Taka vel á þar sem við getum en hætta að reyna að breyta því sem ekki er hægt að breyta.

Enn er gott vetrarveður hér. Styttist í vetrarsólstöður og jólahátíð. Þokkalega líflegt á vinnustað og dagarnir nokkuð fljótir að líða. Lítið um hagamýs innandyra í Ástjörn 7 og reykskynjararnir þegja báðir. Við Kimi nokkuð sáttir með tilveruna. Hann þó enn slakari en undirritaður. Ég vona að stutt verði í að við stöndum alveg jafnfætis á ný í þeim efnum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Í sjálfu sér ekkert stórmál, þetta með ráðherratitilinn, en það er engu að síður athyglisvert að velta því fyrir sér að þegar að karlar eiga að taka upp kvenkyns starfsheiti, eins og hjúkrunarkonu eða flugfreyju, þá þykir það alls ekki ganga en einhverra hluta vegna þá finnst fólki það eiga að vera sjálfsagður hlutur að konur láti kalla sig ,,herra" til dæmis.
 
Mér finnst orðið "herra" alveg fela í sér tvíkynja merkingu í svona samhengi, alveg eins og orðið "maður" þegar því er stillt upp í ákveðið samhengi, eins til dæmis gagnvart "apa". Þá á orðið "maður" jafnt við konur og karla. Það eru hins vegar bara apar á þingi sem eyða fé úr þjóðarbúinu til að rífast um orðhengilshátt. Ég skil ekki hvers vegna það ætti að vera niðrandi fyrir konu að vera kölluð "ráðherra", og í raun finnst mér breyting á þessu ekki gefa annað til en að munur sé á stjórnandanum eftir því hvort hann er karl eða kona, sem hlýtur að vera andfemínískt. Svo ég tek undir orð Hösmaga, lifi jafnréttið, en eyðum ekki tíma ráðamanna í Babýlón.
 
Sælir báðir. Gamla hjúkkan er úr sögunni fyrir löngu. Hjúkrunarfræðingurinn mættur. Og flugþjónninn. Það er laukrétt að það er bara sorglegt að eyða tíma Alþingis og þar með fjármunum okkar í svo fánýta hluti. Og lit á barnafötum. Engum finnst neitt athugavert við að konur séu forstjórar fyrirtækja. T.d. Rannveig Rist. Öll þessi della skaðar jafnréttisbaráttuna. Svo er lika alltf betra að hugsa áður en talað er. Bestu kveðjur til ykkar.
 
Eins og ég sagði, í sjálfu sér ekkert stórmál. Ég var nú meira bara svona að velta þessu almennt fyrir mér að það er ákveðin hneigð til þess að konur eigi að sætta sig við að vera karlgerðar en að karlar sætti sig við að vera kvengerðir.
Svo finnst mér það ekkert endilega svo ómerkilegt að velta fyrir sér staðalímyndum kynjanna. Finnst það bara meira að segja stórpólitískt mál og allt í lagi að ræða það á þingi eins og annað. Það má hins vegar alveg taka undir það hvort heilbrigðisráðherra eigi að svara fyrir litaval á fæðingardeildum spítalanna. Vona satt best að segja að sú ákvörðun sé tekin á lægri stjórnsýslustigum.
Kveðjur annars frá Chile til sitt hvorrar hliðar Hellisheiðarinnar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online