Saturday, December 01, 2007

 

Dularfulli reykskynjarinn og músin sem dó.

Þegar maður fær skondið og skáldlegt komment á bloggið sitt verður að bregðast við. Þó Hösmagi sé nú kunnur fyrir ritsnilld, mega væntingarnar þó ekki verða of miklar. Þegar ég flutti hingað fyrir rúmum 3 árum byrjaði reykskynjarinn að gefa frá sér smápíp við og við. Sem þýðir að rafhlaðan er að verða tóm. Ég fór og keypti nýja. Svo var bara að skipta um. En hvar var skynjaraskrattinn? Eitthvað sem líktist þessu tæki var fyrir ofan innri forstofudyrnar. Litla trappan hentaði því vel. Þá var að hefjast handa. En þessi skynjari var öðruvísi en þeir sem ég hafði átt við áður. Hér þurfti verkfæri. Svo var skrúfað. Og skrúfað meira. Andskotans vesen hjá þessu liði að vera sífellt að breyta hlutunum. Að lokum náðist lokið af. Og undir lokinu var dyrabjalla íbúðarinnar. Það fauk næstum í mig. Enda enn ein sönnunin um léleg tök mín á hverskonar tækni .Tel mig þó sjaldan gera " tæknileg mistök".Hér í íbúðinni er hátt til lofts. Yfir 4 metrar þar sem hæst er. Ég leit upp. Og þar var skynjarinn í 4 metra hæð. Steinþagði að sjálfsögðu á meðan ég bardúsaði við dyrabjölluna. Þá var að ná stóru tröppunni úr bílskúrnum hjá Bjarna. Það tókst. Og ég skipti um rafhlöðu. Það varð þögn þangað til fyrir nokkrum vikum þegar djöfsi byrjaði á ný. Tíst, tíst og Raikonen botnaði ekkert í hvar fuglinn feldi sig. Ég var illa fyrir kallaður, dimmt og kalt úti, tröppu- og rafhlöðulaus, svo ég lét mig hafa þennan fjanda. Sofnaði, og um morguninn var kauði þagnaður. Svona gekk þetta í nokkra daga. Og ekki keypti ég rafhlöðuna. Svo um kvöldmatarleitið einn dag í þarsíðustu viku keyrði um þverbak. Þetta var voðalegt. Sálardrepandi. Bjarni var heimavið og fljótlega náði ég rafhlöðunni úr. Pípið hvarf. Ég komst í stól minn og fagnaði. En ekki lengi. Tíst, tíst og aftur tíst. Ég varð mér út um nýja rafhlöðu. Þögn. Og tíst á ný. Nú var geðheilsan orðin í verulegri hættu. Best væri líklega að rífa þennan ófögnuð alveg burt og drekkja honum í ánni. Ég klifraði upp tröppuna. Eins gott að vera tryggður við heimilisstörf. Og í þessu skapi sem ég var.
Rafhlaðan snéri rétt. Ég hringdi í Hörð. Bílamanninn, sem er snjall við margt annað en bíla. Ég hafði gert þetta rétt. Og Hörður varð hugsi á svip. Svo fór hann inn í þvottahús og setti gömlu rafhlöðuna í reykskynjaradjöfullinn sem hafði legið þar í leyni árum saman og setið þar á svikráðum við mig. Eða staðið sína plikt, öllu heldur.Mér kom í hug gamla máltækið: Margur er ríkari en hann hyggur. Ég á sem sagt 2svona tæki en ekki bara eitt. En ég vona sannarlega að þau séu ekki fleiri. Reyndar kryddaði þetta nú tilveruna í drunganum heilmikið. Og sýnir mér enn og aftur hvað lífið getur verið skemmtilegt.

Þegar ég var að sofna eitt kvöldið í vikunni var Kimi að læðupokast hér fram og aftur um íbúðina. Ég sofnaði. Svolítið svefnstyggur í þessari viku.Rumskaði við djöfulgang undir rúminu. Sennilega harður eltingaleikur við bréfkúlur. Ég sofnaði bara aftur. Um þrjúleitið var Kimi farinn að hnoða. Og nudda og mala hátt. Ég varð að rísa á fætur. Kveikti ljós, gekk að vaskinum í eldhúsinu og fékk mér kalt vatn að drekka. Ekki kominn tími á kaffi í þetta sinn. Varð svo litið á gólfið. Blóðdropi. Og annar skammt frá. Hvað hafði gerst? Átti ég að hringja í Hermann í rannsóknarlögreglunni? Fleiri dropar. Slóðin lá inní svefnherbergið. Kveikti fleiri ljós. Við enda slóðarinnar lá dáin hagamús. Ég bölvaði í hljóði, fjarlægði líkið og þreif gólfið. Svo fór ég að hugsa. Allir gluggar og dyr harðlokaðar. Er nýleg íbúð á efri hæð í blokk á Selfossi ekki músheld? Ég hugsaði meira. Út og inngönguglugginn á kontornum hafði verið opinn nokkurn tíma um kvöldið.
Og Kimi laumast út í haga. Minnti mig á snjótittlinginn sem kötturinn Hösmagi geymdi bak við stofuskápinn í Sænska húsinu forðum. Og kunni fóstra sínum litlar þakkir fyrir að láta tilla þennan sleppa frjálsan ferða sinna út í himinblámann. Kimi hefur fundist nauðsynlegt að upplýsa fóstra sinn strax um afrek sitt. Meðan hann er hér innan dyra munu hagamýs ekki þrífast hér. Það er auðvitað ágætt, svona eitt og sér.

Þetta var sem sé pistillinn sem skáldið var að minnast á. Fremur svalt í dag en mesta rokið búið. Í bili. Þokkaleg spá í kortunum, að ég held. Kominn desember og stutt í að myrkrið byrji að víkja fyrir birtunni. Það er í seinni tíð meira fagnaðarefni fyrir mig en jól og áramót. Bestu kveðjur frá okkur Kimi. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Hefði ekki verið nær að hringja í Hergeir frekar en Hermann?
 
Örugglega hefði Hergeir rannsakað þetta mál ofan í kjölinn. Tekið prufur, fingraför og klóför af kettinum.En Hermann þessi kom við sögu í skáldsögunni Radíó Selfoss. Honum tókst þó ekki alveg nógu vel upp við rannsókn sína á iðju þeirra Sigurðar Óla og Einars Andrésar þegar þeir pössuðu kannabisplönturnar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online