Sunday, December 09, 2007

 

Kjaftur.

Það eru einkenni á sumum stjórnmálamönnum að þeir eru lítið annað en kjafturinn einn.Gott dæmi um það er Sverrir Hermannsson. Enda stundum kallaður strigakjaftur. Það gat þó reyndar verið gaman að Sverri. Hitti oft naglann á höfuðið í sinni óstöðvandi munnræpu. Össur Skarphéðinsson er svipuðu marki brenndur. Nema það er sjaldnast hægt að hafa gaman af kjafthætti hans. Sjálfbirgingshátturinn, montið og vitleysan er alveg yfirgengileg þegar hann stingur niður penna eða hefur upp raust sína. Smámunir eins og hugsjónir og staðfesta í málflutningi eru þessum manni ákaflega fjarlægir. Nýjasta dæmið er raup hans um góðmennskuna í garð gamla fólksins og öryrkja. Sannleikurinn er sá að meirihlutinn fær ekkert. Þeir verst settu í sömu sporum og áður. Össur hreykir sér af að hafa gert miklu meira en VG hafði lofað að gera. Mér dettur ekki í hug að taka upp hanskann fyrir Steingrím J. og Ögmund. Þeir eru fullfærir um það sjálfir og ég orðinn flokkslaus maður hvort eð er. Ég treysti þeim tveim samt sem áður miklu betur til að koma fram baráttumálum mínum í jafnréttismálum og málefnum gamals fólks og öryrkja. Að ógleymdum umhverfismálum. Þó ég eigi ekki samleið með VG nú um stundir af alkunnum ástæðum, mun ég ekki saka forystufólk VG um að sigla undir fölsku flaggi. Þessir mánuðir sem liðnir eru frá stjórnarmyndun íhalds og SF hafa dugað síðarnefnda flokknum til að svíkja flest ef ekki öll kosningaloforð sín. Össuri og Ingibjörgu virðist standa á sama. Völdin eru sæt á bragðið. Það er líka svo skemmtilegt að ferðast. Birta sviðsljósanna ofurljúf.Vonandi njóta þau þó skötunnar saman á Þorláksmessu. Mér er sannarlega ekki illa við þetta blessaða fólk. Langt í frá. Samt vona ég að ég nái að lifa það að þau hverfi úr pólitíkinni. Enda er ég eiginlega tilneyddur að verða 100 ára svo ég geti dáið skuldlaus maður.Ég tók íbúðarlán til 40 ára árið 2004. 2044 á ég að hafa lokið greiðslu þess. Fæðingarárið 1944 svo þetta passar bara ágætlega.

Það er enn gott vetrarveður. Hlýnar á þriðjudag og spáð er 3-6 stiga hita hér sunnanlands um jólin. Sem þýðir væntanlega rauð jól. Það eykur tilhlökkun mína mjög til þessara hátíðisdaga. Margir kunna nú betur við hvít jól. En það verður aldrei hægt að gera okkur öllum til hæfis á sama tíma. Það er bara þannig.
Við Kimi hengdum útiseríu á svalirnar í gær. Hann sýndi þessu verki næstum of mikla athygli. Stökk á allt sem hreyfðist. Ágætur dagur hjá báðum. Bestu kveðjur að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekki get ég nú verið sammála þér í þessum snjómálum enda er ég hlynntur föl og tek hana fram yfir allt, jafnvel laxveiðar í Tangavatni!
 
Fæ,,desja vú"; finnst eins og að ,,snjódeilurnar" hafi áður borið á góma hér og þar stilli ég mér, sem fyrr, upp með Hösmaga í snjólausa liðinu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online