Monday, December 17, 2007

 

Sættir.

Það hefur stundum hent undirritaðan að verða ósáttur við sjálfan sig. Það er vond tilfinning. Veldur vandræðum á borð við depurð og drunga. Óróleiki tekur við af rólyndi hugans. Hann fer á flökt og svefnvenjur úr skorðum. Nóvember var óvenju erfiður nú. Klóraði mig þó einhvernveginn fram úr honum.Smátt og smátt hefur þetta verið að breytast til hins betra. Hösmagi og Siggi Sveins eru orðnir sáttir aftur. Sín á milli og við flesta aðra.Ekki alveg alla eins ykkur rennir grun í.Það er mikið myrkur þessa daga. Vætusamt í meira lagi en hitastigið oftast vel yfir frostmarkinu. Samkvæmt spám verður engin breyting þar á næstu daga. Sólstöðudagurinn á laugardaginn, Þorláksmessa, jólahátíð og áramót að bresta á. Sauðahangikjötið komið í ísskápinn, pækillinn komin í pott og gúrmet lærið fer í hann annað kvöld.Laufabrauð,síld og nú óviðjafnanlega góður reyktur lax og urriði.Sama ferðalag á aðfangadag og undanfarin ár. Heimsæki systkyni mín, börn og barnabörn. Aftur austur um kvöldið og rólegheit með Kimi á jóladag. Það verður a.m.k. þríréttað borð fyrir hann. Soðin ýsa, rækjur og þurrfóður.Og svo koma skáldið mitt og heitkona þess í heimsókn á annan jóladag. Ég þarf ekki að kvarta og hlakka til nýs árs. Árið 2007 verið mér ágætt um margt þrátt fyrir nokkrar erfiðar vikur á síðari hluta þess. Hollvættir nálægt mér þegar mest reið á. Útlitið var heldur dökkt þann 17. ágúst, enda byrjaði ég þá að undirbúa jarðarför mína. En ég tapaði ekki áttum og hélt ró minni. Eins og ég sagði frestaði ég svo jarðarförinni um mörg ár. Stundum líkt mér við köttinn sem talinn er eiga níu líf. Ég á eitthvað eftir í pokahorninu og hyggst njóta þess eins lengi og auðið verður.Hin góðu öfl, frábær læknir og yndislegt hjúkrunarlið komu mér yfir erfiðan hjalla sem skyndilega varð á vegi mínum Þó ég hafi nánast lagt haglabyssunni þá verða stangirnar í mikilli notkun áfram. Veiðivötnin halda aðdráttarafli sínu. Ölfusá mun áfram streyma fram og ég mun verða á bökkum hennar næsta sumar. Meðan lífsgleðin og bjartsýnin ríkir verður áfram gaman að vera til. Það vona ég að eigi við um sem allra flesta.
Kimi lagstur endilangur hér á borðið.Samkvæmt veðurstöðinni á Reynivöllum 4 hefur hitastigið dansað í kringum 9 gráður í nótt. Og Kári situr á strák sínum í bili. Hlakka til dagsins enda nóg að gera í vinnunni Það styttir þessa stuttu daga enn meira.Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Allt er gott sem endar vel. Kveðjur frá landinu þar sem sumarsólstöður eru á allra næsta leyti.
 
Rétt er það. Þau sannindi enn í fullu gildi. Ég sendi þér og stelpunum þínum mínar bestu kveðjur suður í hlýjuna. Hún bíður okkar hér þegar hænufetunum hefur fjölgað nóg.
 
Skila því, takk. Getum litið svo á að brátt verði allt á niðurleið hér í suðrinu meðan að allt mun stefna upp á við í birtustundum á Íslandi. Þar er því bjartara framundan.
 
Ósköp er þetta indælt allt saman. Bið að heilsa ykkur, Siggum tveim, og vona að þið hafið það sem allra best um jólin. Býst nú við að hitta eða í það minnsta heyra í þeim eldri fyrr en varir, fyrir jól, en veit að enn verður nokkur dráttur á fundum við þann yngri.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online