Sunday, December 02, 2007

 

Bloggheili.

Eftir spaugstofuþáttinn í gær er ég ekki lengur í neinum vafa með mitt eigið heilabú. Ég er með bloggheila. Það skemmtilegasta við þennan þátt var að aðalmennirnir voru aukaatriði. Læknarnir Óttar og Kári skýrðu þetta allt meistaralega. Þór var líka góður. Og nafni minn Líndal, minn gamli og ágæti lærimeistari úr lagadeildinni, var alveg frábær. Nú get ég aldeilis látið gamminn geysa á næstunni. Alls óhræddur við smámuni. Svona eins og meiðyrðamál, t.d. Nú get ég látið allt vaða, því Sigurður sagði að við bloggheilamenn værum ósakhæfir. Það væri í hans augum alveg skothelt samkvæmt íslenskri löggjöf. Ég þóttist sjá að Sigurði leiddist ekki mjög á meðan hann útskýrði þessa hluti. Löngum verið brosmildur sá ágæti maður. Kári var líka alveg klár á framsóknargeninu. Og staðfesti reyndar það sem ég hef oft sagt að það vantar allan heilann í framsóknarmenn. Engin heilabrot þar. Mér létti líka yfir að ég var aðeins í fáa mánuði flokksbundinn í VG. Það er ekki einu sinni grænt í þeim vinstra hvelið. Litli heilinn miklu stærri en sá stóri. Það eina sem ég saknaði var útskýring á feministaheilanum. Líklega sérsmíðaður og svo flókinn að enginn botnar neitt í neinu. Læknarnir hafa ekki lagt í að kryfja hann. Þessi fræðsluþáttur spaugstofunnar var kærkomin tilbreyting í skammdegismyrkrinu. Staða mín hefur líka styrkst í baráttunni við yfirfíflið í bæjarstjórnarmeirihlutanum hér á Selfossi.

Talandi um skammdegismyrkur þá á það varla við nú í augnablikinu. Sólin skín glatt þó ekki sé hún nú hátt á lofti. Líklega væri þjóðráð að viðra grænu þrumuna aðeins. Bregða sér bæjarleið áður en myrkrið grúfir sig yfir okkur aftur. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online