Thursday, December 20, 2007

 

Hið ljúfsára.

Ég hef stundum áður minnst á hið ljúfsára í þessum pistlum mínum. Í dag, 21. desember 2007, eru liðin 3 ár síðan skáldið mitt kynnti mig fyrir bloggveröldinni. Í litlu notalegu íbúðinni í Lögmannasundi í Edinborg. Daginn eftir lagðist heimsvaldaflensan á mig. Þá tók skáldið til sinna ráða.Þorláksmessa leið án vitundar minnar. Á nokkura tíma fresti gaf skáldið föður sínum Day nurse. Kraftaverkalyf, sem að sjálfsögðu er bannað á Íslandi. Ég held að þetta hafi borgið lífi undirritaðs.Reis upp um hádegi á aðfangadag og átti einstök jól með skáldinu og Helgu. Þau minnisstæðustu á síðustu árum. Og eins og áður stendur það ljúfa uppúr. Hið sára nánast gleymt. Það hefur ævinlega verið svo að ég festi mér það góða betur í minni en það sem miður fer. Það sannar líka að erfiðleikar eru til að sigrast á þeim.Lífið væri ekki jafnskemmtilegt ef það væri stöðugur dans á rósum.

Hér er nú 7 stiga hiti. Síðasti vinnudagur fyrir jól. Kaupsamningur hjá mér kl. 11. Býst nú við fremur rólegum vinnudegi. Flestir að hugsa um aðra hluti en kaup eða sölu á fasteignum. Á morgun, sólstöðudaginn, ætla ég að ljúka við þrif á vistarverum okkar kisa míns. Á Þorláksmessu sýð ég norðlenska sauðinn. Ætla að passa vel upp á pottinn, því sagan segir að Kjötkrókur sé á ferðinni þennan dag. Lyktin af hangikjötinu er samofin þessum ágæta degi. Þetta er líka dagur fyrsta hænufetsins í átt til birtunnar. Það er nú ekki lítið fagnaðarefni.

Það er sem sagt allt í réttum skorðum hér í Ástjörn. Vinátta okkar fósturfeðga söm og fyrr. Líkamleg vellíðan og sálarró beggja í besta lagi. Kvörtunardeildin víðs fjarri.Við sendum öllum kveðjur úr vætusömu myrkri sem brátt minnkar. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online