Tuesday, December 25, 2007

 

Jólakyrrð.

Við Kimi erum vaknaðir að morgni jóladags. Hér ríkir kyrrð yfir öllu. Vindurinn sefur og hitastigið mínus 1 gráða. Morgundöggin frá Kaffi-Tár bragðast sérstaklega vel á þessum ljúfa morgni. Ég var komin heim rétt fyrir miðnætti. Í farteskinu var m.a. snakk handa Kimi sem systir mín yngri skenkti honum í jólagjöf. Þetta voru litlar, grænar og hvítar mýs. Innihald þeirra var m.a. silungur. Og kötturinn varð nánast trítilóður af lyktinni einni. Hakkaði í sig 10 stykki með stjarnfræðilegum hraða.Ég las jólakortin og kíkti síðan í nýju bókina Ólafs Ragnarssonar, til fundar við skáldið Halldór Laxness. Lofar góðu. Nóg lestrarefni fram yfir áramót. Englar dauðans eftir Þráinn Bertelsson og frá himnaríki til helvítis eftir Jón Kalman Stefánsson. Ég hef stundum sagt það hér hve leiðinlegt mér finnst að liggja veikur í bælinu. En nú er ég stálhress. Þá er ágætt að liggja í rólegheitunum og lesa góðar bækur. Renna sér svo aðeins í steik og sauðalæri inná milli.Við Kimi munum ekki svelta á þessum jólum. Hann hafði lokið við soðnu ýsuna og fékk rækjur til morgunverðar. Snuddar nú hér í kring um fóstra sinn og virðist líða vel að venju. Ég ætla í göngutúr þegar skíma kviknar. Örugglega hressandi að hreyfa sig aðeins í þessu indæla veðri. Það var skemmtilegt að keyra austur í gærkvöldi. Þó mér sé lítið um snjó gefið verður því ekki neitað að myrkrið verður bærilegra í návist hans. Það var smámugga og snjólag yfir Hellisheiði. Græna þruman sannaði enn og aftur ágæti sitt. Spól- og skriðvörnin er tölvustýrð í hvert hjól og þessi unaðslega rennireið skilaði mér heilum heim sem jafnan áður. Ef veðrið helst svona í dag kíkjum við örugglega á fyrirheitnalandið. Óðalið, sem kúrir nú í myrkrinu við rætur Búrfells, bíður eftir vorinu eins og ég. Það mun koma með birtu og angan gróðurs.

Nú er nóg kveðið að sinni. Við kisi minn sendum ykkur enn og aftur bestu kveðjur.Þökkum sérstaklega kveðju frá gömlum granna og kisum hans. Okkur líður sérlega vel og við vonum að það sama gildi um ykkur öll, ykkar Hösmagi.

Comments:
Fátt slær úr kyrrláta jólastemningu með nýútkomna bók í hönd og reykt kjöt og konfekt til að narta í. Vantar reyndar maltölið hingað.
Gleðileg jól og fengsælt nýtt ár og kveðjur til afkvæmanna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online