Monday, December 10, 2007

 

Upprifjun.

Um miðja síðustu öld var undirritaður lítill strákur. Ég var 6 ára 1950. Á þessum árum var óhemjumikll snjór hér sunnanlands. Ég minnist þess t.d. að hafa kastað mér út um glugga á 2. hæð á Selfossvegi 5. Í snjóskaflinn mikla sem þar hafði hlaðist upp. Svo varð ég að grafa mér leið út úr snjófjallinu. Þetta var að sjálfsögðu ákaflega skemmtilegt. Mjólkurbílarnir voru klukkutíma frá gamla kaupfélaginu austur að mjólkurbúinu. Og sífellt voru bílstjórarnir að brjóta drifin og gírkassana í bílunum. Nú er öldin önnur. Það hefur varla sést snjór hér síðustu 10 vetur.Þó ég hafi áður sagt frá veiðitúr í Tangavatn fyrir rétt tæpum 10 árum ætla ég að rifja þá sögu upp. Það var gott veður þann 20 desember 1997. Ég bjó þá í sænska húsinu með mínum kæra vini, fresskettinum Hösmaga. Hann hafði reyndar mjög gaman af miklum snjó.Það var okkur ekki sameiginlegt. Ég fékk skyndilega þá hugmynd að liðka Herconinn þennan dag. Hélt að Tangavatni í svartamyrkri um tíuleytið. Þar var blankalogn, 8 gráðu hiti, ekki snjókorn nálægt og ekki bærðist hár á höfði. Ég dvaldi þarna fram eftir degi. Og mokaði upp stórurriða. Sá stærsti 7 pund og þónokkrir litlu minni. Þessi dagur mun alltaf verða mér ógleymanlegur. Ég var einn þarna við rætur Heklu. Átti nánast staðinn þennan fallega dag. Mér leið óvenjulega vel þegar ég kom heim aftur síðdegis. Það er kannski ástæðan fyrir að ég tek veiðiferð í Tangavatn fram yfir snjó. Eða smáföl. Samkvæmt langtímaspám veðurfræðinga gæti ég hugsanlega endurtekið leikinn. Vetrarsólstöður eru nú laugardaginn 22. desember. Ég ætla að fylgjast vel með veðri og hitastigi næstu daga.

Við Selfyssingar sluppum að mestu við rok næturinnar og nú er hér hægur andvari og nokkrar plúsgráður. Kimi snöggur út þegar ég opnaði gluggann.Ég fór á fund í gærkvöldi.Sat þar í 2 tíma umvafinn ágætum konum. Eina karlremban á þessum fundi.Þetta er félagsskapur sem heitir Bandið og er sjálfshjálparhópur fólks sem greinst hefur með krabbamein.Mér fannst þetta góð stund. Þetta fólk kemur ekki saman til að kveina og kvarta. Stutt í hláturinn og fólk gerir grín að sjálfu sér. Kom þaðan betri maður eins og af septemberfundinum. Nú er ég útsofinn, hress og kaffið jafnvel enn betra en aðra morgna. Aðeins 11 vinnudagar eftir af árinu 2007. Ég kvíði ekki nýju ári. Birtu, hlýju, veiði og lífsgleði. Það er indælt. Við rauðliðar sendum góðviðriskveðjur úr mildri desemberblíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Mér þykir hljóðið gott í Hösmaga, sem er vitaskuld hið besta mál. Mæli með skrepptúr okkar feðga í Tangavatn fyrir jól ef veður verður milt og lausar stundir stillast saman. Væri alveg til í að ná einum sjöpundara fyrir næstu utanlandsreisu.
 
Mér líst vel á það, minn kæri.Það er reyndar komin smáföl í bili.Stuttir dagar framundan eins og 1997.Samt nægur tími til að krækja í nokkra ef þeir verða tilkippilegir.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online