Sunday, December 23, 2007

 

Dagur heilags Þorláks.

Það er fallegur dagur núna. Sólin glampar á Ingólfsfjall og það bærist vart hár á höfði.Í morgunsárið hafði tunglið tyllt sér á brún þessa ágæta fjalls. Það var líka falleg sjón sem varpaði fölri birtu yfir okkur hér. Ég var að taka saltlærið úr ofninum. Jólalærið, sem lengi hefur verið hefð fyrir á heimilinu. Þegar líður á daginn kemur ný og góð lykt aftur. Hangikjötsilmurinn af norðlenska sauðalærinu. Það er ró yfir mannlífinu. A.m.k ennþá. Það er líka sunnudagur og margir hafa það bara rólegt heima eins og við Kimi. Hann fylgist náið með öllum hreyfingum mínum hér innandyra. Gluggaþvotti, eldamennsku og ýmsu öðru. Jólapappír og límband er líka ákaflega spennandi. Við plumum okkur alveg af þessu standi. Ég læt skápana í friði að innanverðu. Segi eins og frúin sem var spurð hvort hún væri búin að þrífa skápana að innan: "Ég ætla ekki að halda jólin inní skáp". Og sumir siðir eru löngu aflagðir. Eins og Þorláksdroparnir. Bollan sem gerð var úr hvítvíni, vodka og ananassafa. Gerði það að verkum að maður vaknaði með hausverk og þorsta á aðfangadag.Þó ég hafi ekkert á móti áfengum drykkjum sakna ég ekki þessa siðar. Hentar örugglega betur á öðrum tímum. Ég hlakka til að hitta afkomendur mína á morgun. Nú eru þeir allir á landinu og veðurspáin er ágæt. Í gamla daga var stundum harðsótt að komast heim aftur. Nú hef ég úrvalsvagn til umráða og jörð nánast auð. Og svo verður mér fagnað þegar heim kemur. Þá er líka hægt að bæta á sig meiri krásum og lesa jólakortin. Á jóladag taka þeir svo við Ólafur Ragnarsson og Halldór Laxness. Og ef veðrið verður fallegt ætla ég að kíkja á fyrirheitna landið í Grímsnesinu. Njóta þess að vera í fríi, við góða heilsu til líkama og sálar. Þetta er nú meira en margir fá að njóta. Við Kimi sendum ykkur öllum bestu jóla og nýárskveðjur. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Maður kemst heldur betur í jólaskap við að lesa þetta!
 
Bestu jólakveðjur úr Miðtúni 11 frá gömlum nágranna, og læðurnar tvær hér í húsi biðja að heilsa Kima, trúi ég. Erlingur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online