Monday, August 28, 2006

 

Nýju fötin keisarans.

Farsinn um Kárahnjúka heldur áfram. Stjórnarformaður Landsvirkjunar er gamall uppgjafaþingmaður litla flokksins sem vill ekki kannast við nafn sitt lengur. Það má skilja hann svo að þeir sem gagnrýna pukrið, leyndina og óheilindin séu að saka hann og aðra hans líka um að stofna fjölda mannslífa í hættu. Kannski er það bara rétt. Ef stíflan brysti eftir að hafa verið fyllt verða afleiðingarnar skelfilegar. Af hverju má ekki doka við og láta óháða aðila segja álit sitt. Ef virkjanaherinn trúir á sérfræðinga í jarðfræði, jarðeðlisfræði og stíflugerð af hverju þarf þá að gera upp á milli þeirra. Gamla máltækið um að ekki valdi sá er varar á hér við. Það er með ólíkindum að upplýsingum um jarðhita og sprungusvæði skuli hafa verið haldið leyndum fyrir þeim sem tóku ákvarðanir um þessa virkjun. En það er þó með enn meiri ólíkindum hvernig Valgerður, VirkjunarGeir, Skeifugeir og fleiri bregðast við þegar upp um þau kemst. Og véfréttin hagar sér á sama veg. Valgerður segir í einu orðinu að engu hafi verið leynt en í hinu að þingmenn hefðu ekki komist yfir að lesa skýrslu Gríms Björnssonar. Ég hef alltaf haldið að núverandi orkumálastjóri væri heiðursmaður. Kannski er hann það. Hann sá þó strax að upplýsingar Gríms gætu komið virkjunarsinnum illa. Hann hefur ekki gefið haldbæra skýringu á því að hann skyldi stimpla þessar upplýsingar sem trúnaðarmál. Það hefur verið upplýst af upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar að 500 milljónum hafi verið eytt vegna þessara upplýsinga og það séu smáaurar miðað við heildarkostnaðinn. En það má alls ekki hleypa óvilhöllum sérfræðingum að málinu. Það eru bara valinkunnir sérfræðingar virkjunarsinna sem eiga að ráða ferðinni. Ætlar þjóðin að sætta sig við þennan skandala? Rök þeirra sem vilja skoða þetta nánar eru sterk. Nánast skotheld. Og vítin eru til að varast þau. Það eru til svona minnisvarðar annarsstaðar í heiminum. Þar sem menn skutu fyrst og spurðu svo. Hann yrði nú svo sem ekki til prýði þessi minnisvarði við Kárahnjúka. En hann yrði þó skárri en það sem getur gerst ef flanað verður áfram eins og virkjunardátarnir vilja. Dokum við og fylgjumst grannt með.

Bara rúmlega 6 gráður og gjóla. Það haustar að en landið skartar sínu fegursta. Við kisi vökum þó nóttin sé ung. Rauðhausarnir báðir. Samkomulagið gott sem fyrr og lífið heldur áfram með öllum sínum tilbrigðum. Líklega leggjum við okkur bara aftur og látum okkur dreyma eitthvað fallegt. Biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online