Tuesday, August 08, 2006

 

Enn af kraftaverki.

Kraftaverkið á Jóni forseta var nú ekki merkilegt ef grannt er skoðað. Hann var út í Mexíkó fyrir nokkrum árum. Og fékk þursabit. Fór inní kirkju og sá mynd af Maríu mey eins og eru í flestum guðshúsum katólskra landa. Honum datt í hug að biðja hana um að taka úr sér þursabitið. Og nokkru síðar uppgötvaði hann að það var bara horfið. Rétt sisvona. Án þess að ég vilji gera lítið úr mætti Maríu þá hverfur nú þursabit venjulega af sjálfu sér. En það sem verra er að véfréttin trúir á að kraftaverk muni gerast á framsóknarflokknum. Hann virðist ekki þekkja muninn á þursabiti og uppdráttarsýki. Uppdráttarsýkin er ólæknandi og nú er einungis spursmál um dauðastund þessa úrelta, stefnulausa og gjörspillta flokks. Ég hef ekki trú á að Jón, þó vænn maður sé, muni nokkru breyta. Meðan draugurinn Dóri Móri er með puttana á taumunum mun þessi þróun halda áfram.
Faðir véfréttarinnar frá Bifröst var Sigurður Ólason hæstaréttarlögmaður. Hann var húmoristi og hinn skemmtilegasti karl. Líklega hefur nú Jón erft eitthvað af þeim góðu hæfileikum föður síns. Einu sinni var ég á uppboði niður á Eyrarbakka. Þar var Páll sýslumaður og heill her af lögfræðingum. Það voru margir búnir að gera fjárnám í eigninni. Í svokölluðum réttindum samkvæmt kaupsamningi. Í þá tíð var ekki venja að þinglýsa kaupsamningum. Látið var duga að þinglýsa afsali því annars urðu menn að greiða stimpigjaldið tvisvar. Allir vissum við nú lögmennirnir að maðurinn sem bjó í eigninni hafði keypt hana. En enginn okkar hafði afrit af kaupsamningnum undir höndum. Stendur þá ekki allt í einu upp téður Ólason. Með sitt Hitlersskegg. Og mælir: Hvað eruð þið eiginlega að gera hér? Hvaða uppboðsheimild liggur hér fyrir? Einhverjar sögusagnir utan úr þjóðfélagi um kaupsamning. Og hann mótmælti að uppboðið færi fram. Hann snéri þarna á allan þennan óvíga her sem ætlaði að gæða sér á aurunum sem kæmu inn við sölu eignarinnar. Lögmenn smokruðu sér heimóttarlegir út úr húsinu og sumir gáfu hressilega í til að komast frá þessari forsmán sem fyrst. Undirritaður leit aðeins um öxl um leið og hann hvarf út úr húsinu. Og sá ekki betur en þeir glottu báðir Páll sýslumaður og herra Ólason hrl. Ég kynntist nú þessum nafna mínum lítillega í gamla daga. Líklega góður karl og sérstaklega skemmtilegur. Nái Jón Sigurðsson kjöri sem formaður er líklegt að hann verði skemmtilegasti formaður flokksins í langa hríð. Það þarf að vísu ekki mikið til. Skemmtilegheitin hafa nú ekki beinlínis geislað af Dóra Móra hingað til.

Sól hátt á lofti. Það bærist varla hár á höfði en hitastigið undir 10 gráðum. Við Raikonen löngu komnir á stjá. Hressir í morgunsárið að vanda. Ætla með Rauðku í skoðun kl. 8. Svo tekur brauðstritið við. Vonandi verður þetta góður dagur fyrir okkur öll, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online