Saturday, August 05, 2006

 

Sálgreining.

Þegar við feðgar komum úr Veiðivötnum um síðustu helgi sat kattarfóstra hér á fleti fyrir. Eins og umtalað var. Og kisi minn hinn brattasti. Eins og ég hafði svo sem búist við hafði Raikonen nú ekki einn katta verið á sveimi hér í íbúðinni. Pési matgámur hafði verið iðinn við kolann sem fyrr. Og afétið kisa minn að sögn frúarinnar. Hún hafði orðið að grípa til róttækra aðgerða svo hann fengi nú eitthvað í sig. Kannski var þetta nú aðeins dramatiserað. Meðan kisi minn varð að kúra sig niður í baðvaskinum lá forsætisráðherran makindalega í hægindastólnum. Hann var sem sé drottnarinn í þessu vináttusambandi. Held að þetta sé nú a.m.k. að sumu leyti rétt. Auk þess að vera matgrannur er kisi minn séntilketti. Kurteis og vel upp alinn. Pési vinur hans er hinsvegar alveg botnlaust átvagl. Hann er samt bara nokkuð prúður og stilltur. Og kann lagið á vini sínum, mér. Mal og blíðuhót notar hann óspart. Og nær umtalsverðum árangri. Og vinir eru þeir. Það fer ekkert á milli mála. Ég hafði mjög gaman af þessum pælingum frúarinnar. Hún hafði átt hér góðar stundir skildist mér. Ekki spillti örlítil brjóstbirta fyrir. Ég var henni þakklátur fyrir að vilja vera hér á meðan fyrrverandi eiginmaður og ástarávextirnir voru að stórurriðadrápi á hálendinu. Leysti hana út með gjöfum og tók við búsforræði á ný. Þ.m.t. fóstri kisa. Aldrei að vita nema þetta verði fastur siður næstu árin. Þriðjungur ávaxtanna, skáldið, kemur hér á eftir. Með Helgu sína með sér. Vona að þau rigni ekki alveg niður í fyrirheitna landinu. Green Highlander bíður þolinmóður við dyrnar á bílskúrnum. Fullur af eldsneyti og eldmóði hinna 330 stóðhestafla. Mun örugglega skila þeim Helgu og vinum á áfangastað og heim á ný. Pabbi og tengdapabbi munu báðir hafa það næs heimavið. Og kannski að hinn finnski Raikonen vinni sinn fyrsta sigur í dag. Þessi geðþekki Finni sem ég tel reyndar langbesta ökumann formúlunnar nú. Hrokagikkirnir báðir, skósmiðurinn og spanjólaskrattinn, báðir aftarlega á truntunni eftir að hafa skandalíserað í tímatökunum. Hlakka bara til að fylgjast með kappakstrinum í dag. Og vona að Trójuhesturinn í Mac Laren liðinu komi ekki fram vilja sínum nú.
Klukkan langt gengin í fimm. Og loks komin skíma. Rólegt yfir bænum enda margir að bleyta í sér einhversstaðar langt í burtu. Verði þeim að því. Hösmagi þurr, utan og innan í hlýjunni heima. Ætla þó í eftirlitsferð um bæinn fljótlega. Þeir Kimi og forsætisráðherann gæta hússins á meðan. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online