Wednesday, August 16, 2006

 

Snemma.........

beygist krókurinn. Mér datt þetta gamla máltæki í hug þegar sænski nafni minntist á Árna Nonsens. Árið 1964 fór ég á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þá var til siðs að keppa þar í frjálsum íþróttum. Hösmagi var tvítugur og Árni líka. Báðir ungir og " efnilegir". Þeir og einhverjir aðrir ungir menn reyndu með sér í 100 metra hlaupi. Viðbúnir, tilbúnir og skothvellur. Ég beið eftir hvellinum en það gerði Árni ekki.Sá í hælana á honum nokkru áður. Ég hikaði en hljóp svo á eftir honum. Og þetta átrúnaðgoð þeirra Eyjajarla kom fyrstur í markið. Fékk gull og brosti út að eyrum. Ég gekk til þess sem hleypti af fallbyssunni og spurði hann af hverju hann leyfði mönnum að þjófstarta. Jú, Árni var aðeins of fljótur af stað en " þetta var svo lítið". Ég sagði ekki neitt en hugsaði mitt. Kannski tók því ekki að dæma Árna í tugthúsið mörgum áratugum síðar. Þetta voru nú engin ósköp sem hann stal. Enda sýndi hann enga iðrun. Og auðvitað var það bara níðingsháttur vondra manna að hleypa honum ekki frá hótel Kvíabryggju til að gaula á þjóðhátiðinni. Góð ráð verða dýr fyrir þennan dýrling. Hvernig getur hann sótt um uppreisn æru svo hann fái að bjóða sig fram til þings að nýju? Þessi æruprýddi dýrlingur. Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ekki öll vitleysan eins. Það hringlar enn í hausnum og það mun halda áfram. Ef Árni verður þingmaður á ný undirstrikar það bara siðferðismat þeirra sem kjósa hann til þess.Ný rós í hnappagat íhaldsins hér í suðurkjördæmi.
Enn að veðri. Við nafni með það á heilanum báðir. Fallegur ágústdagur hér í gær. Hitinn 19 gráður langt fram á kvöld. Logn og sól. Svaladyrnar opnar og angan af grillkræsingum lagði inn um dyrnar. Hösmagi kominn hálfa leið í Veiðivötnin í huganum. Sannfærður um að þeir stóru bíði. Kannski er þetta svona svipað og með börnin og jólin. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. En eitt er víst að alltaf verður, ákaflega ljúft að halda í Veiðivötn.
Það verður skýrsla þegar heim er komið. Og líklega fleiri en ein. Von til þess að Hösmagi þurfi eitthvað að tjá sig um sjónarspil fáránleikans eftir flokksþingið mikla um næstu helgi. Góðar kveðjur til Köben, Spánar og í allar áttir, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online