Sunday, August 20, 2006

 

Styrkurinn.

Sá er nú aldeilis í góðum málum sem er í framsóknarflokknum. Þar er sama hvort menn vinna eða tapa. Styrkurinn vex. Mestur er líklega styrkur Hauks Haraldssonar sem fékk heilt atkvæði í slagnum um formannssætið. Véfréttin er sterk, styrkur Jónínu frambærilegu er óhemjulegur eftir annað tapið í röð fyrir Guðna. En Guðni var svo snjall að láta frúna dreyma fyrir úrslitunum. Jónína varaði sig bara alls ekki á þessu trikki og beið því lægri hlut. Og varaþingmaður draugsins er líka óhemjusterkur. Kristinn og litla gamalmennið lyppuðust bæði niður og studdu hann. Það er í raun allt við það sama. Tíðindalaust af framsóknarvígstöðvunum.Dóri Móri brosir út í annað. Plottið gekk upp að mestu. Eina vandamál draugsins er Guðni varaformaður. Það er illt þegar menn eru ekki reiðubúnir að ganga í dauðann með foringja sínum. Allt að því dauðasök. Hinn raunverulegi uppskurður fór alls ekki fram. Uppskurðurinn á uppdráttarsýkinni sem mun halda áfram. Ef Guðni hefði raunverulega viljað láta sverfa til stáls hefði hann gefið kost á sér sem formaður. Loftið er enn lævi blandið og spá mín er sú að veturinn verði erfiður fyrir þennan flokk sem kastað hefur öllum skástu stefnumálum sínum á ruslahaugana. Líklega eru nú fá sæti á listum flokksins örugg í komandi þingkosningum. Og lítið pláss fyrir véfréttina. Finnst mönnum líklegt að meyjarnar tvær gefi eftir?Eða Guðni. Alveg fráleitt. Eða Kristinn óþægi? Jafnfráleitt. Nýi formaðurinn hefur traust frá rúmlega 50 prósentum þessa tætingsliðs. Ekkert frá þjóðinni. Það á eftir að reyna á það. Kannski á það fyrir honum að liggja að vera formaður í stjórnmálaflokki án þess að fá umboð frá óbreyttum kjósanda til að sitja á þingi. Kæmi mér ekki á óvart. En það verður allt reynt. Draugsi með lúkurnar í spottunum enn. Spurning um styrkleika þeirra. Sagan staðfestir að strengir geta slitnað þegar verst gegnir. Það reyndist örlagaríkt á Hlíðarenda forðum. Það er ekki líklegt að Langbrækur framsóknar hagi sér á annan veg en Hallgerður. Þökk mun gráta þurrum tárum. Með kveðjum úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online