Monday, August 21, 2006

 

Staðviðri.

Rólegt yfir veðrinu. Myrkur og kyrrð. Hösmagi heldur uppteknum hætti. Vaknar snemma og kaffið er indælt að venju. Vindillinn er líka enn uppá borðinu. Líklega ekki það hollasta með morgunkaffinu. Og kettir eru líka vaknaðir. Raikonen að koma inn úr morgunrannsóknum sínum og Pési vinur hans dormar hér í stól. Líf hans er bara Sovétlíf. Gerir held ég ekkert annað en éta og sofa. Ný styttist í vertíðinni. Ætla að skreppa í ána f.h. á laugardag og síðan í tvöfalt sjötugsafmæli eftir hádegið. Kannski fæ ég líka að skreppa í Tunguá þann 1. sept. Litlu ána í Lundarreykjadal. Alltaf indælt að koma að Reykjum. Fyrst eftir að veiði lýkur á haustin myndast svolítið tómarúm í tilverunni. Nýr biðtími sem skiptist í nokkurskonar áfanga. Myrkrið sækir í sig veðrið, jólin koma og birtan sækir á að nýju. Hugmyndin að hollvinafélaginu verður vonandi að veruleika í næsta mánuði. Kannski verður þetta fyrst og fremst táknræn barátta. Munum beina athyglinni sterklega að þessum hrikalegu náttúruspjöllum. Vonandi verður okkur eitthvað ágengt. Og það hefur verið ánægjulegt að finna að ég stend ekki einn í baráttunni.
Sem stendur er rólegt á vinnustað. Of rólegt fyrir undirritaðan. Þegar mest er að gera er vellíðanin tryggð. En gamla lögmálið um hæðir og lægðir er enn í fullu gildi. Kannski er ekki von á góðu meðan landið er hálfstjórnlaust og stjórnmálamenn að skríða ofaní skotgrafirnar fyrir orrahríðina næsta vor. Við þurfum vonandi ekki að segja okkur úr þjóðfélaginu þegar henni lýkur. Nú er að verða sauðljóst eins og sagt var í sveitinni forðum. Kominn tími á að anda að sér hreina loftinu eftir vindilsogið. Megi friðurinn ríkja í sálum ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online