Wednesday, July 30, 2008

 

Ljúfviðri.

Veðrið er gott. Norðlæg átt og klukkan 7 var hitinn hér 18,1 gráða. Heitasti dagur ársins hér í gær, 24,3 gráður.Það er þó svo að hitinn dregur niður laxveiðina í ánni góðu. Tveir bættust við í gær og heildartalan komin í 227. Þetta eru dagar eins og þeir gerast bestir á íslensku sumri. Hösmagi mun halda sig við Selfoss um verslunarmannahelgina. Löngu hættur að skælast út og suður þessa daga. Ætla að nýta veiðileyfi sunnudagsins þó veiðivonir séu minni vegna jökullitarins á fljótinu. Skáldið, Helga og vinir koma líka á sunnudaginn. Fá grænu þrumuna til Veiðivatnafarar. Hún er nú orðin jafngóð eða betri eftir hremmingarnar um daginn. Við kisi erum hér bráðahressir eins og flesta morgna. Það er erfitt að hafa lokaðan glugga hér á kontórnum í svona blíðu. Ég hef því brugðið á það ráð að fela matinn ef ég bregð mér af bæ. Kattarófétið Lúsifer, fantur og þjófur, situr um gluggann. Hann er þvílíkur gámur að það hálfa væri nóg. Lætur sig ekki muna um að hreinsa upp úr kúfuðum dalli ef færi gefst. Sannarlega ekki jafn dannaður og ljúfkettið Raikonen.Hann var utandyra í gærkvöldi þegar undirritaður gekk til náða. Þegar ég vaknaði síðla nætur lá hann endilangur á dýnunni góðu. Skemmtileg sjón og kisi lítur á þetta sem sitt rúm. Fékk sér svo snarl úr dallinum sem ég hafði falið fyrir villidýrinu.
Þetta er svo ljúfur morgunn að ég nenni ekki að nöldra neitt. Ég er þó sama sinnis og í gær. Geir með frekjuskrúfu sinni í Noregi. Líklega með farmiða heim, því miður.Áþjánin heldur áfram. Ég er í uppreisnarhug gegn þessu óstjórnarliði. Fari það allt í fúlan pytt. Kveðjur frá okkum vinum til allra vina, ykkar Hösmagi.

Tuesday, July 29, 2008

 

SF.

Pistillinn gæti nú alveg eins heitið nöldrað í sólskini. Hitastigið er nú þegar komið í 20,8 gráður. Sagt er að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi. Fullyrðingar mínar um eðli Samfylkingarinnar undanfarin misseri hafa þó allar reynst réttar. Hugsjónalausa moðsuðan kraumar enn í pottinum. Reyndar heilmikið soðið uppúr nú þegar, og grauturinn sem eftir er, er viðbrenndur. Fagra Ísland falsorðin tóm. Nú vill gamli íhaldsmaðurinn sem síðast náði kjöri fyrir SF stokka upp stjórnarsáttmálann. Hann sér sem er, að ríkisstjórnin ræður ekki við þau mál sem nú brenna heitast á landsfólkinu á þessu volaða skeri. Það eru reyndar fleiri sem sjá þetta. En ráðherrar SF berja hausnum við steininn. Og varaformaðurinn einnig. Það er með ólíkindum hvernig hann talar. Og þó. Valdasýkin er takmarkalaus. Deilum og drottnum meðan hægt er. Það er alveg óþarfi að ræða stjórnarsáttmálann. Það nægir nefnilega að " breyta um nálgun". Í " hvora áttina sem er" Hringlið og svikin vefjast ekki fyrir honum frekar en öðrum forystumönnum SF. Þeir þekkja ekki máltækið að orð skuli standa. Það er lítið verk og löðurmannlegt hjá viðskiptaráðherranum, þingmanni suðurkjördæmis, að taka skóflustungu að nýju álveri í Helguvík. Þaðan kemur svo þessi snillingur austur í hreppa og segist vera á móti virkjun Þjórsár. Rafmagnið á þó m.a. að nota til að knýja þetta sama álver. Honum leiddist heldur ekkert austur í Kína um daginn. Hann er gott dæmi um rotnunina sem hrjáir þessa flokksnefnu. Það er svo sem ýldufnykur á fleiri stöðum. Íhaldið lagast nú ekki mikið. Það má sannarlega segja að skel hæfi kjafti í núverandi ríkisstjórn. Þar les hver limur biblíuna afturábak eins og Satan forðum. Vonandi springur þessi ríkisstjórn með hvelli. Sem allra fyrst. Ég hef aldrei upplifað aðra eins áþján í pólitíkinni. Þetta er algjörlega gagnslaust lið. Miklu verra en ekki neitt. Veruleikafirringin, valdasýkin og stjórnleysið ræður ferðinni. Það er nú þegar orðið okkur ákaflega dýrkeypt. Rekum þau úr fílabeinsturninum og látum þau strita í svita síns andlitis. Mokum svo út úr musterinu við Austurvöll. Þegar því er lokið verðum við á réttri leið. Kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

 

Staðræðni.

Í síðasta pistli sagðist undirritaður vera staðráðinn í að krækja í laxfiska þann 27.
En stundum dugar það ekki. Ég ákallaði góðar vættir. Hét á Immu. Skoraði á Hildiþór að krækja einum á færið. Ég hugsaði líka til guðs. Guðs þjóðkirkjunnar. Það þýddi ekkert heldur, enda undirritaður sennilega út af sakramentinu eftir að hafa yfirgefið ríkiskirkjuna. Kannski voru aðstæður ekki sem bestar. Mikill hiti og áin mjög jökullituð. Ég var nú samt ósköp slakur yfir þessu. Veiðin er aldrei gefin fyrirfram, enda færi spennan þá fljótt af þessari indælu iðju. Það gengur bara betur næst. Ásdís veðurfræðingur var að spá allt að 25 stiga hita á næstunni.Ef spáin gengur eftir verður áin lítið skárri en nú.
Ég sá á moggavefnum að Landsbankinn hefur grætt 5 milljarða á mánuði fyrstu 6 mánuði ársins. Enginn kreppa á þeim bænum. Sigurjón bankastjóri brosir breitt. Síðustu 3 mánuðir hafa skilað bankanum 11 milljörðum í "þjónustutekjur". Þetta er árangur einkavæðingarinnar. Nú er hægt að okra yfirgengilega á viðskiptamönnum þessa banka. Ég hef verið í viðskiptum við hann allt frá barnsaldri.Kannski er hann lítið verri en hinir bankarnir. Blóðmjaltirnar eru ástundaðar þar líka. Þessar stofnanir eru allar keimlíkar. Það sem tapast hefur í fáránlegu pókerspili stjórnendanna má alltaf vinna upp með gegndarlausu okri á okkur aumingjunum. Við verðum alltaf neðstir í goggunarröðinni. Hluthafarnir ávallt í forgangi. Hvernig væri að viðskipavinir bankans fengju líka hlutdeild í öllum gróðanum? Það er auðvitað borin von. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Hugsjónin um rétt hins sterka til að troða hinn smáa í svaðið er aðall okurherranna. Gamli draugurinn og yfirnagarinn una glaðir við sitt. Eða öllu heldur okkar. Þeir gáfu vinum sínum bankana. Eigur okkar. Og samviskan plagar þá ekki verulega. Það er heldur enga stefnubreytingu að sjá þrátt fyrir aðild SF að landstjórninni. Ég legg til að öll ríkisstjórnin skreppi til útlanda á farmiða aðra leiðina. Hún væri t.d. vel geymd í Zimbave.

Við Kimi erum hér á rjátlinu eftir venju. Nú étur hann Purina þurrfóður í stað Whiskas. Það er strax munur á feldinum. Hárlosið hefur snarminnkað og fallegur gljái á mínu ágæta dýri. Nýja fæðið er nokkru dýrara en hitt en það skiptir ekki sköpum. Rauðskott mitt er alls góðs maklegt. Við fósturfeðgar sendum útvöldum bestu kveðjur úr sumarblíðunni, ykkar Hösmagi.

Friday, July 25, 2008

 

Fiskihrellir....

er nokkuð hress í morgunsárið. Græna þruman er nú komin til síns heima eftir lagfæringar.Hún nánast prjónaði af kæti þegar eigandinn birtist á tveim jafnfljótum. Það er alltaf gott að ná reisn sinni og styrk að nýju. Hér er nú prýðisveður, nánast logn en sólarlaust. Kimi hefur viðrað skott sitt eftir sífellt mók í roki undanfarinna daga. Áin er enn nokkuð lituð. Ég held að hún verði alveg extra fín á sunnudaginn. Fiskihrellir er ákveðinn í að krækja í laxfiska þann dag. Veiðimenn virtust kærulausir í gær og slógu slöku við, enda kom einungis einn lax á land. Það eru líka dagaskipti í þessum efnum eins og öðrum. Ég held að línur muni strengjast meira næstu daga.
Allt gekk eftir með vegstúfinn að óðalinu. Hann er nú orðinn að veruleika og er bara þónokkuð mannvirki. Kannski verður hægt að framkvæma meira á næsta ári. Einkum og sérílagi ef við losnum við núverandi ríkisstjórn. Hver hefði trúað því að mér sé jafnvel orðið hlýtt til sumra framsóknarmanna. Hitti Guðna og frú hans upp með Ölfusá í fyrradag. Átti við þau stutt spjall. Ég sagði Guðna reyndar frá því að ég hefði nú ekki alltaf talað par fallega um flokkinn hans. Hann vissi það nú og glotti bara. Ég er þó að sjálfsögðu flokkslaus maður áfram. Ætla að halda áfram að dæma stjórnmálamenn af verkum sínum. Það væri þjóðinni til heilla að núverandi ríkisstjórn tæki síðustu stununa hið fyrsta. Svona álíka mikilvægt og að skipta um stjórnendur í höfuðborginni. Nóg um það í bili. Dásemdir sumarsins eru líka miklu ofar í huga mér en vond stjórnvöld. Ég hugsa nú æ meir til Veiðivatna. Veruleg tilhökkun til þeirrar farar. En fyrst eru 3 laxveiðidagar í elfunni góðu. Þeir stytta biðina eftir draumalandinu. Við Kimi köttur sendum báðir bestu kveðjur til alls góðs fólks. Ykkar Hösmagi.

Wednesday, July 23, 2008

 

Veisluhöld.

Þó Ölfusá sé ekki þekkt fyrir að vera meðal gjöfulli laxveiðiáa landsins bláa, þá erum við veiðimenn alsælir með gang mála. Undanfarna 8 daga er búið að landa 109 löxum sem eru rúmlega 13 stykki á dag. Það eru ansi mörg ár síðan slíkt hefur gerst.Að kvöldi gærdagsins var búið að bóka 196 laxa og ca. 10 væna sjóbirtinga. Áin er nú nokkuð skoluð eftir rigningu mánudagsins. Ég á ekki veiðidag fyrr en á sunnudaginn og iða í skinninu. Hunterinn bærir á sér og nú bókstaflega skal ég fá hann í Víkinni. Setti þar í 4 laxa á síðasta veiðidegi en þeir kvöddu allir. Næstum farið að síga í gamla Gráskegg. En mín alþekkta geðprýði varð yfirsterkari og 2 laxar á seinni vaktinni bættu þetta upp. Ef veislan heldur áfram má gera ráð fyrir að þetta verði besta veiðisumarið í áratugi. Laxarnir eru að vísu frekar smáir miðað við það sem áður var. Megnið er á bilinu 2-3 kg. Afbragðsmatfiskur og laxinn er sprækur og skemmtilegur á stönginni.
Það er enn dumbungur og rétt sést í rætur Ingólfsfjalls. Kimi liggur í glugganum og þvær loppur sínar eftir könnunarleiðangur í vætunni. Milt veður og veiðimenn hafa nú rennt færum sínum. Líklegt að línur muni strengjast í dag eins og að undanförnu.Ég skilaði Kóreuvagninum í gær. Vonast eftir þrumunni í dag eða á morgun. Veltur á öðru framljósinu sem er væntanlegt frá USA. Gamli Lancerinn malar eins og Raikonen. Seigur vagn þó gamall sé orðinn. Undirritaður svaf óvenjumikið í nótt. Líklega í eina 6 eða 7 klukkutíma. Venjulega svefnléttur og 4-5 tímar duga oftast þegar sumarið hefur völdin.A.m.k. 4 laxveiðidagar eftir og Veiðivötnin að auki. Kominn tími á stórurriða þaðan. Við Kimi erum kátir og hressir í morgunsárið. Hann svaf endilangur á dýnunni góðu sem skáldið gisti á aðfaranótt 3ja stanga dagsins sem varð okkur feðgum svo heilladrjúgur. Hafi ég einhverntíma séð mann brosa eins og sólin sjálf var það skáldið mitt að kvöldi þess 18. þessa mánaðar. Líklega lítið vafamál hvaðan það hefur veiðidelluna. Kærar kveðjur til afkomenda og vina, ykkar Hösmagi.

Monday, July 21, 2008

 

Meiri væta.

Það er ágætt að fá vætu eftir allt sólskinið í síðustu viku.Kisi liggur í glugganum áhugalítill um útiveru. Ég eldaði minnsta laxinn í gær og hann sveik nú aldeilis ekki. Það var þess virði að borða nýjar íslenskar með þó mér blöskri verðið. Ein meðalstór kartafla á 24 krónur. Það var veiðidagur fjölskyldunnar í gær og mér sýndist hafa veiðst 14 laxar. Ég ætla að vera bjartsýnn og spá því að þeir verði um 300 í sumar. A.m.k. ef skilyrði verða viðunandi. Ég lagði mig aftur í morgunsárið og það fór á sama veg og í dorminu í gærmorgun. Ég var kominn með hann á oftar en einu sinni. Allt er þetta ágætt. Ég ætla í heimsókn til Pjeturs frænda í kvöld. Þar verður meiri fiskur á borðum. Enda finn ég hvað gáfur mínar njóta sín æ betur við hvert gramm af fiski sem ég læt í mig. Tékka á þrumunni minni á eftir. Kóreuvagninn er reyndar ekki sem verstur. Eyðir fremur litlu eldsneyti. En hann vantar nú ansi margt sem prýðir minn eðalvagn.
Það stóð jafnvel til að skreppa í Fellsendavatn í dag. Veðurspáin varð þó til þess að fresta för okkar Jóns Ragnars þangað. Bíður bara betri tíma. Það er ró og friður yfir tilverunni. Jafnlyndið það sama og ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu eins og áður. Það er líka tilgangslaust að æsa sig upp yfir smámunum. T.d. hroka og sjálfbirgingshætti. Allavega sakna ég ekki forstjóra fasteignasölunnar Bakka ehf. Ég hef líka á tilfinningunni að hún sé í andarslitrunum. Kannski var það óumflýjanlegt. Uppskeran verður að venju í samræmi við sáninguna. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, sem erum slakir og rólegir heima, ykkar Hösmagi.

Sunday, July 20, 2008

 

Dásemdir.

Í síðasta pistli minntist ég á strengdar línur. Við feðgar áttum frábæran föstudag við Ölfusá. Ekki spillti nú veðrið fyrir okkur. Skáldið hóf talninguna klukkan hálfátta. Það átti líka síðasta orðið á slaginu eitt. Þá höfðu línur okkar þanist meira og minna allan morguninn. Draumar gamals veiðimanns höfðu sannarlegt rætst. Samtals lönduðum við 10 löxum þennan indæla morgunn. Seinni vaktin varð rólegri en þó bætti skáldið þeim ellefta við. Við hættum um kvöldmatarleytið enda orðnir alsælir með feng okkar. Við munum ekki gleyma þessum rómaða 3ja stanga degi í bráð. Ættfaðirinn jók svo við aflann í gær með því að krækja í 2 laxa. Ég minntist á það um daginn að laxarnir yrðu 100 á laugardagskvöldið. Veiðin tók þó enn meiri kipp og í gærkvöldi höfðu 148 laxar veiðst hér. Fagnaðarefni, og ég spái að þeir verði yfir 200 um mánaðamótin. Þá er allur ágúst eftir. Hösmagi hyggst sjóða lax þegar líður á daginn. Held að skáldið hafi nú þegar gætt sér á góðmetinu með Helgu og vinum. Maggi er nú í sumarhúsi með fjölskyldunni og þar er líka örugglega laxaveisla.Hösmagi var hálfsteiktur við heimkomu í gærkvöldi. Glampandi sól og handarbökin nær svarta litnum en þeim ljósa. Raikonen beið fóstra síns og fagnaði að venju. Hann þurfti að hnusa vel af innpökkuðum feng fóstra síns. Það er sem sé full ástæða til að láta sér líða vel á þessum fallega sunnudegi. Vika í næsta veiðidag og þá eru eftir 3 ágústdagar með viku millibili. Veiðivötnin bíða okkar feðga og langfeðga 12.-14. ágúst. Það er því heilmikið af dásemdunum eftir.
Eftir hádegið ætla ég enn að óðalinu undir Búrfelli.Á von á að ræsið og vegstúfurinn séu orðin að veruleika. Draumurinn um kærleikskotið lifir enn góðu lífi.
Þrátt fyrir ljúfa þreytu eftir 2 veiðidaga í röð gekk Hösmagi seint til náða. Vaknaði þó snemma að venju. Fékk mér göngutúr í lognblíðunni og naut þess út í hörgul. Það verður bara ljúft að leggja sig aðeins aftur. Kæmi alls ekki á óvart að laxfiskar geri vart við sig í draumalandinu. Við Kimi sendum vinum okkar hinar ljúfustu kveðjur úr sumarblíðunni, ykkar Hösmagi.

Wednesday, July 16, 2008

 

Daprir munu....

glaðir verða. Leit á þrumuna mína í fyrradag. Ósköp dapurleg ásýndum. Stuðaralaus og ekkert grill. Þessi rennireið er örugglega með sál. Endurheimtir brátt gleði sína og glæsileika. Ég fer á Kóreuvagninum í afmæli Ingunnar Önnu í dag.Litla snótin 6 ára á þessum fallega sumardegi. Ölfusá bíður eftir okkur feðgum í fyrramálið. Ég minntist á það síðast að laxarnir yrðu 100 í vikulokin. Það gerðist reyndar í gær og nú eru þeir orðnir 107. Og þrír dagar eftir af vikunni. Morgundagurinn leggst mjög vel í mig. Bjartsýnin ríkir og veruleg eftirvænting eftir að telja upp fiska úr elfunni góðu. Það eykur líka á ánægjuna að hafa synina með mér. Ekki svo oft sem ég hef þá báða nálægt mér. Vona að veiðigyðjan verði okkur hliðholl þennan komandi föstudag.
Ég gerði ferð að óðali mínu í gær. Óðalsbóndinn Steinar á Syðri-Brú ætlar að leggja ræsi og veg að spildunni á morgun. Það verða nú varla miklir fjármunir til frekari framkvæmda á þessu ári. Það koma tímar og ráð síðar. Kærleikskotið hefur alls ekki verið blásið af. Ég komst svo uppá Flúðir í gærkvöldi. Varð glaður og feginn að koma heim undir miðnættið. Kimi hafði skilað sér heim eftir langa útiveru. Hann kann að njóta útiverunnar í sumarblíðunni eins og við hin. Hitinn komst í 19 gráður í gær. Laxinn samt nokkuð tilkippilegur því 11 stykki lágu í valnum eftir daginn. Víkin er með daufara móti í sumar. Þó komu 4 á land þar í gær. Ég stoppaði þar í klukkutíma og sá allmarga laxa lyfta sér á meðan. Tignarlegur fiskur, laxinn.

Klukkan er nú rúmlega 7 að morgni dags. Veiðimenn væntanlega búnir að renna færum sínum víða um land. Veðrið mjög gott hér og norðangarrinn frá í fyrradag löngu genginn niður. Góð veðurspá fram yfir helgi. Ákaflega ljúft. Megi línur okkar feðga strengjast verulega á morgun. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Monday, July 14, 2008

 

Lognblíða.

Svolítið svalt í morgunsárið. Hitinn 6.6 gráður en algjört logn. Hann hefur stytt upp eftir verulega úrkomu síðustu 3 daga. Okkur feðga mun ekki skorta beitu við veiðiskapinn á föstudaginn kemur.Nú hef ég aðgang að tveimur góðum görðum og það var nóg af maðki eftir alla úrkomuna. Veðurspáin er einnig mjög góð og vatnið í Ölfusá verður einnig með besta móti. Svo er stórstreymt núna í vikunni svo skilyrði verða vart betri til stangveiði. Í fyrrakvöld höfðu veiðst 8o laxar sem er allgott.Spá mín er að þeir verði orðnir yfir eitthundrað þegar vikunni lýkur. Hösmagi á líka veiðidag á laugardaginn og ætlar sér stóra hluti þessa 2 daga.
Ég fór með grænu þrumuna í viðgerð í gærmorgun. Nú ek ég um á vínrauðum vagni frá Kóreu. Þokkalegur, þó hann eigi nú lítið í þrumuna góðu. Mér hefði dugað minn ágæti gamli Lancer. Sá þó enga ástæðu til annars en að láta tryggingafélögin leggja mér til aðra bifreið. Þau fara allavega ekki á hausinn við það. Ég verð þó ákaflega feginn að endurheimta minn eðalvagn. Jafn ánægður með hann nú og jafnan áður.
Það er friður yfir mannlífinu hér. Raikonen nennir ekki einu sinni út í blíðuna. Liggur dormandi í gamla stólnum hér gegnt mér við borðið.Miðað við veðurspá ættu stultumenn að geta málað næstu daga. Ekki er ég nú algjörlega sáttur við nýja litinn á blokkinni. Hann er þó miklu skárri en sá ræpuguli sem fyrir var. Svolítið grátt í honum og mun sennilega venjast vel. Ég er búinn að velta vöngum yfir stultumanninum sem ég nefndi í síðasta pistli. Mín helsta niðurstaða er sú að hann hafi sloppið úr pólskum sirkus. Allavega heyrði ég hann tala undarlegt tungumál við einn félaga sinna. Hann var enn með framlenginguna í gær. Alveg eins og róbót. Kannski þetta sé bara vélmenni?

Nú læt ég hverjum degi nægja sína þjáningu. Horfi fram á veginn. Klukkan að verða 7 á þessum ágæta degi. Ætla að nota hann til að lækka enn á pappírshaugnum. Við Kimi sendum vinum okkar bestu sumaróskir, ykkar Hösmagi.

Saturday, July 12, 2008

 

Svo lengi lærir....

sem lifir segir máltækið. Ég varð hreinlega að bæta nokkrum orðum við síðasta pistil.Eins og ég minntist á um daginn standa yfir utanhússviðgerðir á blokkinni.Múrviðgerðir og málningarvinna. Lyftur, stigar og tröppur allt um kring.Fyrir stuttu gekk ákaflega hávaxinn maður hér framhjá glugganum. Málari með pensil og dollu. Útidyrnar opnar og ég gat ekki á mér setið að reka út nefið og kynna mér kauða aðeins betur. Og nú gaf á að líta. Undir löppunum voru sérhannaðar álstultur. Ekkert virtist manninum eðlilegra en ganga um á þessu. Held örugglega að hann sé ekki fæddur með þessa framlengingu. Þetta er bráðsnjallt. Ekkert klifur upp og niður tröppur. En þó öll heimsins gæði væru í boði gæti ég ekki hugsað mér að leika þetta eftir. Ég yrði lofthræddur og fengi svima. Þetta er með algjörum ólíkindum. Hefði vart trúað því nema að ég sá þetta með eigin augum. Sannarlega vona ég að þessi málari taki engin feilspor á þessari uppfinningu. Þrátt fyrir súldina er hægt að bera á klæðninguna undir skyggni svalagangsins. Laugardagsmálarinn er hugdjarfur og kallar ekki allt ömmu sína. Segi eins og snillingarnir í útvarpinu: Ja hérna hér. Fleiri kveðjur, ykkar Hösmagi.

 

Rekja.

Dumbungur og fjallið góða er hulið þoku.Engin stórrigning ennþá. Samt gott að fá vætu á skraufþurra jörð og að öllum líkindum kíkja ormarnir til veðurs í kvöld.Undirritaður búinn að viðra sig í morgunsárið. Kíkti í veiðibókina og þar var búið að bóka 71 lax, auk sjóbirtinganna. Hösmagi hélt galvaskur á seinnivaktina í fyrradag. Og eins og stundum áður gaf þolinmæiðin fisk. Krækti reyndar í 2 laxa sem voru 2,5 og 2,9 kg.Ákaflega sáttur að kvöldi með helminginn af afla dagsins. Litur árinnar er að lagast. Það hefur kólnað inná hálendinu og flest bendir til að 18. júlí verði bara ekta fínt vatn í elfunni góðu. Strax farinn að að hlakka til að eyða deginum þar með strákunum mínum.Ég á einnig veiði þann 19.og ef heldur fram sem horfir eru veiðivonir góðar. Ég á enn nokkra orma og ef ekki rignir nægilega um helgina ætlar Hörður að vökva nýsleginn blettinn hjá sér. Í kvöld ætlar hann að éta annan laxinn sem ég veiddi í fyrradag. Ég er enn minnugur orða míns gamla vinar, Björns Stefánssonar, sem sagði að sá sem ekki tímdi að gefa fisk fengi bara enga frekari veiði. Auk þess er miklu skemmtilegra að veiða laxinn en að borða hann. Passlegt að fá sér lax á eins til 2ja mánaða fresti. Nú hef ég lítið borðað annað en sjóbirting í 2 daga. U.þ.b. komið nóg af honum í bili. Hann er svo saðsamur að ég á enn 2 sneiðar óétnar. Hann er einnig mjög ljúffengur kaldur og gott að borða smurt brauð með honum.
Eftir hádegið ætla ég uppí Bláskógabyggð að líta á sumarhús samkvæmt beiðni. Fer á litla Lansa því jeppinn bíður nýþveginn í bílskúrnum. Fer á vekstæðið á mánudagsmorgun og ég endurheimti hann örugglega í vikunni. Eftir að hafa vaknað fyrir allar aldir er upplagt að leggja sig smástund. Raikonen á rjátlinu að venju. Báðir íbúarnir í íbúð 205 una nokkuð glaðir við sitt. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 10, 2008

 

Svækja.

Hitinn komst í 20 gráður hér í gær. Og nú kl. rúmlega hálfníu er hann kominn í 17,6 gráður. Kannski ágætt fyrir venjulegt fólk en veiðimenn eru ekki jafn ánægðir. Hitinn er enn meiri á hálendinu og Ölfusá er orðin að einberu jökulfljóti. Ég átti veiðidag í gær og aftur í dag. Í gærmorgun var alskýjað og áin alls ekki óveiðandi.Ég var að sjálfsögðu á árbakkanum vel fyrir kl. 7. Plantaði mér í Klettsvíkina, þennan magnaða stað, þar sem ég hef eytt svo mörgum góðum stundum. Um hálfátta hvarf annar ánamaðkurinn af önglinum. Það þótti mér grunsamlegt. Beitti nýjum og rúmlega 3ja punda sjóbirtingur magagleypti þessa fínu krás. Sannkallaður happadráttur að morgni dags. Rúmlega 9 hljóp svo laxinn á maðkinn. Silfurgljáandi 5 pundari lá innan skamms á bakkanum. Gamli veiðirefurinn var orðinn alsæll með þessa fallegu veiði. Þetta varð líka uppskera dagsins og ég hætti snemma í Víkinni enda þóttu mér líkur á veiði hverfandi. Ég lét mig hafa það að fara þangað aftur í morgun. Kastaði túpu og spæni nokkra hríð. Hélt síðan upp með ánni og reyndi fyrir mér á efsta svæðinu. Mér finnst það nánast undarlegt hvað lítill munur er á ánni þar og í Víkinni. Eins og Sogið megi sín einskis gegn jökulvatninu. Ég ákvað að gefa veiðinni frí þar til síðdegis. En ég ætla að sjálfsögðu aftur í Klettsvíkina. Þar er gott að sitja og dorga í blíðunni. Kannski er veiðivonin ekki mikil. Sinni vaktin þar í gær fékk ekki neitt. Læt reyna á þolinmæðina og hún hefur nú oft gefið mér fisk. Allavega veiðist ekkert ef menn sitja heima. Einhver var að spá regni um helgina. Mætti líka kólna inná hálendi svo áin hreinsi sig fyrir hinn rómaða 3ja stanga dag annan föstudag. Ég talaði við skáldið mitt í gærkvöldi og hann nefndi töluna 7 fyrir föstudaginn 18. Ekki ólíkleg tala miðað við snillingana 3 sem þá verða við iðju sína í Ölfusá.
Fiskar gærdagsins eru í ísskápnum. Geng frá laxinum á eftir en sjóbirtingurinn fer í pottinn. Það verður því veisla hér í Ástjörn um hádegisbilið. Býð Raikonen að smakka. Hann virðist þó hrifnari af ýsunni en eðalfiskinum. Svo verður fjandi gott að leggja sig eftir matinn og mæta að ánni fílefldur og hress á seinni vaktina. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Tuesday, July 08, 2008

 

Þeysireið....

á þrumu grænni. Ég sótti skáldið til Reykjavíkur á laugardaginn. Þaðan fórum við austur í Haukadal og hittum hluta af stórfjölskyldunni, eins og venja er til þann 5. júlí. Að áliðnum degi héldum við heim á Selfoss og undurbjuggum veiðitúrinn í Eystri Rangá. Þar þurftum við að vera kl. hálfsjö þann 6. Fyrri vaktin var tíðindalítil og við sáum ekki fisk. Fengum okkur lambakótilettur í hléinu. Hálfdasaðir, enda lítið búnir að sofa. Það kemur nú yfirleitt ekki að sök á þessum árstíma. Við byrjuðum svo á svæði 5 á seinni vaktinni. Þar var líflegra og við sáum fljótlega fisk lyfta sér. Þó undarlegt megi virðast þá gleymdi ég að taka ánamaðkana með. Keypti nokkra af góðum veiðimanni. Það dugði. Skáldið krækti í 2 ágæta laxa með stuttu millibili. Vildu frekar orm en aðra beitu. Við hættum um hálfníu, héldum í veiðihúsið og bókuðum fiskana. Þaðan lá leiðin austur að Höfðabrekku þar sem skáldið dvelur nú við ritstörf sín. Þegar ég lagði af stað heimleiðis var komin svartaþoka. Það er ekki skemmtilegt að aka þjóðveginn við slíkar aðstæður. Komst þó heill heim en þokan lét engan bilbug á sér finna og ég rétt fann afleggjarann heim í Ástjörn. Var heilsað með mjálmi um leið og lykillinn rann í skrána. Þreyttur veiðirefur sofnaði fljótt enda orðinn lúinn eftir skemmtilegt ferðalag. Ekki oft sem 500 km liggja að baki eftir helgina. Rólegheit í gær og góður svefn í nótt. Sá gamli á svo veiði bæði 9. og 10. og hyggur gott til glóðarinnar. Nokkur dagaskipti í laxinum í Ölfusá. Á sunnudag lágu 8 laxar í valnum eftir daginn en aðeins 1 á gær. U.þ.b. 50 komnir á land og nokkrir mjög góðir sjóbirtingar. Það er sérdeilis mikill eðalfiskur ekki síður en laxinn, sjálfur konungur fiska. Við Raikonen erum snemma á fótum að venju. Hann er á rjátli inn og út um gluggann. Hurðir og gluggar uppá gátt í sumarblíðunni. Þoka niður í miðjar hlíðar á fjallinu góða en lognið er algjört.
Það var bakkað á grænu þrumuna kyrrstæða á laugardagskvöldið. Heiðarleg frú beið við vagninn en stakk ekki af eins og alltof oft gerist. Nýr afturstuðari var pantaður frá USA í gær og þessi eðalvagn fer í viðgerð á mánudaginn. Ég hlakka sannarlega til að endurheimta eldinguna jafngóða og áður. Sjálfum mér hafði tekist að krambúlera þennan góða vagn að framan í júní s.l. Þær verða glæsilegar þrumurnar, sú græna og hin svarta Magnúsar, þegar við brunum til fjalla þann 12 ágúst. Hinn rómaði 3ja stanga dagur er föstudagurinn 18. júlí. Oftast gefið eitthvað og stundum höfum við veitt frábærlega vel. Það eru semsagt aðallega brauð og leikir á dagskrá Hösmaga þessa fallegu júlídaga. Þetta stuðlar að vellíðan frá amstri og áhyggjum hins daglega lífs. Rauðhausar senda kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, July 03, 2008

 

Sumar.

Ég er nú ekki alveg hættur að blogga þó þetta megi kalla strjáling eins og ég nefndi það einhverntíma. Hitinn fór í rúmar 18 gráður í gær. Væta í gærmorgun. Svo blés hann bara og þurrkaði vætuna burt jafnharðan. Hörður bílameistari vökvaði fyrir mig garðinn hjá sér í gær. Lítið um maðk til beitu þessa dagana. Ég sofnaði um ellefuleytið og hafði stillt klukkuna á eitt. Rúmlega 12 hringdi Hörður. Hann var að bardúsa í bílskúrnum að venju. Hafði gómað 2 orma. Ég lagði fljótlega í hann og Raikonen botnaði ekkert í þessu flandri fóstra síns eftir miðnættið. Ormurinn var óvenjulega styggur. Með nokkrum yfirferðum með kjaftahvíld í milli tókst okkur að ná rúmlega 50 ánamöðkum. Það dugar allavega í veiðiferð okkar skáldsins í Eystri-Rangá á sunnudaginn kemur.Flugustöngin verður meðferðis, túpur og spúnar. Ég er farinn að hlakka til ferðarinnar. Mér hefur reynst það erfitt undanfarna daga. Sálarkvölin ekki alveg verið í jafnvægi. Smá tómarúm eftir að ég hætti að vinna á Bakka. 9-5 rútínan út af laginu og maður kann ekki við það. Kannski mætti segja að ég sakni starfsins á þessum vinnustað. Það er líka það eina sem ég sakna þaðan. Lífið heldur áfram og oftast má fá annað skip og annað föruneyti. Það mun takast þó síðar verði.
Nokkuð góður gangur í veiðinni í Ölfusá og í gærkvöldi höfðu veiðst 24 laxar og 2 góðir sjóbirtingar. Það er miklu betri byrjun en í fyrra og var það þó skásta veiðisumarið í mörg ár. Ég á 2 veiðidaga í ánni í næstu viku og ætla að njóta þeirra til fullnustu. Júli jafnan langfengsælasti veiðitíminn. Ég er að vona að skúrirnar verði fleiri þegar líður á daginn. Þá væri ef til vill mögulegt að bæta nokkrum ormum við. Ég geymi þá í skúffunni neðst í ísskápnum. Eins gott að það er engin kona hér á heimilinu. Og Kimi kemst ekki í skápinn. Honum þættu þessir plastpokar með mosa áhugavert rannsóknarefni. Einu sinni voru maðkarnir í fötu á svölunum og honum tókst að veiða nokkra upp úr fötunni með klóm sínum. Við slæmar undirtektir fóstra síns. Á laugardag fer ég upp í Haukadalsskóg eins jafnan þann 5. júlí. Kem heim síðdegis og svo kemur Sölvi og gistir. Spennandi að reyna við ný mið á sunnudaginn. Kimi er nú lagstur hér á borðið. Nokkur vindur utandyra og hann kann ekki við það. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online