Thursday, July 10, 2008

 

Svækja.

Hitinn komst í 20 gráður hér í gær. Og nú kl. rúmlega hálfníu er hann kominn í 17,6 gráður. Kannski ágætt fyrir venjulegt fólk en veiðimenn eru ekki jafn ánægðir. Hitinn er enn meiri á hálendinu og Ölfusá er orðin að einberu jökulfljóti. Ég átti veiðidag í gær og aftur í dag. Í gærmorgun var alskýjað og áin alls ekki óveiðandi.Ég var að sjálfsögðu á árbakkanum vel fyrir kl. 7. Plantaði mér í Klettsvíkina, þennan magnaða stað, þar sem ég hef eytt svo mörgum góðum stundum. Um hálfátta hvarf annar ánamaðkurinn af önglinum. Það þótti mér grunsamlegt. Beitti nýjum og rúmlega 3ja punda sjóbirtingur magagleypti þessa fínu krás. Sannkallaður happadráttur að morgni dags. Rúmlega 9 hljóp svo laxinn á maðkinn. Silfurgljáandi 5 pundari lá innan skamms á bakkanum. Gamli veiðirefurinn var orðinn alsæll með þessa fallegu veiði. Þetta varð líka uppskera dagsins og ég hætti snemma í Víkinni enda þóttu mér líkur á veiði hverfandi. Ég lét mig hafa það að fara þangað aftur í morgun. Kastaði túpu og spæni nokkra hríð. Hélt síðan upp með ánni og reyndi fyrir mér á efsta svæðinu. Mér finnst það nánast undarlegt hvað lítill munur er á ánni þar og í Víkinni. Eins og Sogið megi sín einskis gegn jökulvatninu. Ég ákvað að gefa veiðinni frí þar til síðdegis. En ég ætla að sjálfsögðu aftur í Klettsvíkina. Þar er gott að sitja og dorga í blíðunni. Kannski er veiðivonin ekki mikil. Sinni vaktin þar í gær fékk ekki neitt. Læt reyna á þolinmæðina og hún hefur nú oft gefið mér fisk. Allavega veiðist ekkert ef menn sitja heima. Einhver var að spá regni um helgina. Mætti líka kólna inná hálendi svo áin hreinsi sig fyrir hinn rómaða 3ja stanga dag annan föstudag. Ég talaði við skáldið mitt í gærkvöldi og hann nefndi töluna 7 fyrir föstudaginn 18. Ekki ólíkleg tala miðað við snillingana 3 sem þá verða við iðju sína í Ölfusá.
Fiskar gærdagsins eru í ísskápnum. Geng frá laxinum á eftir en sjóbirtingurinn fer í pottinn. Það verður því veisla hér í Ástjörn um hádegisbilið. Býð Raikonen að smakka. Hann virðist þó hrifnari af ýsunni en eðalfiskinum. Svo verður fjandi gott að leggja sig eftir matinn og mæta að ánni fílefldur og hress á seinni vaktina. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online