Friday, July 25, 2008

 

Fiskihrellir....

er nokkuð hress í morgunsárið. Græna þruman er nú komin til síns heima eftir lagfæringar.Hún nánast prjónaði af kæti þegar eigandinn birtist á tveim jafnfljótum. Það er alltaf gott að ná reisn sinni og styrk að nýju. Hér er nú prýðisveður, nánast logn en sólarlaust. Kimi hefur viðrað skott sitt eftir sífellt mók í roki undanfarinna daga. Áin er enn nokkuð lituð. Ég held að hún verði alveg extra fín á sunnudaginn. Fiskihrellir er ákveðinn í að krækja í laxfiska þann dag. Veiðimenn virtust kærulausir í gær og slógu slöku við, enda kom einungis einn lax á land. Það eru líka dagaskipti í þessum efnum eins og öðrum. Ég held að línur muni strengjast meira næstu daga.
Allt gekk eftir með vegstúfinn að óðalinu. Hann er nú orðinn að veruleika og er bara þónokkuð mannvirki. Kannski verður hægt að framkvæma meira á næsta ári. Einkum og sérílagi ef við losnum við núverandi ríkisstjórn. Hver hefði trúað því að mér sé jafnvel orðið hlýtt til sumra framsóknarmanna. Hitti Guðna og frú hans upp með Ölfusá í fyrradag. Átti við þau stutt spjall. Ég sagði Guðna reyndar frá því að ég hefði nú ekki alltaf talað par fallega um flokkinn hans. Hann vissi það nú og glotti bara. Ég er þó að sjálfsögðu flokkslaus maður áfram. Ætla að halda áfram að dæma stjórnmálamenn af verkum sínum. Það væri þjóðinni til heilla að núverandi ríkisstjórn tæki síðustu stununa hið fyrsta. Svona álíka mikilvægt og að skipta um stjórnendur í höfuðborginni. Nóg um það í bili. Dásemdir sumarsins eru líka miklu ofar í huga mér en vond stjórnvöld. Ég hugsa nú æ meir til Veiðivatna. Veruleg tilhökkun til þeirrar farar. En fyrst eru 3 laxveiðidagar í elfunni góðu. Þeir stytta biðina eftir draumalandinu. Við Kimi köttur sendum báðir bestu kveðjur til alls góðs fólks. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Kveðjur sömuleiðis - en ertu kannski jafnvel á leið í Framsóknarflokkinn?
 
Nei, Sölvi minn, ekki aldeilis. Ég er og verð frjáls og óháður áfram.Spillingarstimpillinn er enn mjög greinilegur á framsóknarflokknum. Nema fólk sé með algjört gullfiskaminni.Sennilega of langt í næstu kosningar og því nægur tími til að fylgjast með framvindunni. Þó ég sé flokkslaus maður eru lifsskoðanir mínar óbreyttar. Bestu kveðjur úr 21 gráðu.
 
Myndi ekki stuðningur við Framsókn flokkast undir aumingjagæsku - eða hjálparstarf?

Bestu kveðjur til Guðna og allra annarra Selfyssinga úr hitasvækjunni í Dänemark.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online