Wednesday, July 30, 2008

 

Ljúfviðri.

Veðrið er gott. Norðlæg átt og klukkan 7 var hitinn hér 18,1 gráða. Heitasti dagur ársins hér í gær, 24,3 gráður.Það er þó svo að hitinn dregur niður laxveiðina í ánni góðu. Tveir bættust við í gær og heildartalan komin í 227. Þetta eru dagar eins og þeir gerast bestir á íslensku sumri. Hösmagi mun halda sig við Selfoss um verslunarmannahelgina. Löngu hættur að skælast út og suður þessa daga. Ætla að nýta veiðileyfi sunnudagsins þó veiðivonir séu minni vegna jökullitarins á fljótinu. Skáldið, Helga og vinir koma líka á sunnudaginn. Fá grænu þrumuna til Veiðivatnafarar. Hún er nú orðin jafngóð eða betri eftir hremmingarnar um daginn. Við kisi erum hér bráðahressir eins og flesta morgna. Það er erfitt að hafa lokaðan glugga hér á kontórnum í svona blíðu. Ég hef því brugðið á það ráð að fela matinn ef ég bregð mér af bæ. Kattarófétið Lúsifer, fantur og þjófur, situr um gluggann. Hann er þvílíkur gámur að það hálfa væri nóg. Lætur sig ekki muna um að hreinsa upp úr kúfuðum dalli ef færi gefst. Sannarlega ekki jafn dannaður og ljúfkettið Raikonen.Hann var utandyra í gærkvöldi þegar undirritaður gekk til náða. Þegar ég vaknaði síðla nætur lá hann endilangur á dýnunni góðu. Skemmtileg sjón og kisi lítur á þetta sem sitt rúm. Fékk sér svo snarl úr dallinum sem ég hafði falið fyrir villidýrinu.
Þetta er svo ljúfur morgunn að ég nenni ekki að nöldra neitt. Ég er þó sama sinnis og í gær. Geir með frekjuskrúfu sinni í Noregi. Líklega með farmiða heim, því miður.Áþjánin heldur áfram. Ég er í uppreisnarhug gegn þessu óstjórnarliði. Fari það allt í fúlan pytt. Kveðjur frá okkum vinum til allra vina, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jú mikil er blíðan og varla skánar liturinn á ánni næstu dagana. Spái því að hún hreinsi sig ekki fyrr en síðla næstu viku. En þá kemur kippur. Spái 40-60 löxum á tímabilinu 7. - 14. ágúst.
 
Klukkan 14:58 voru nákvæmlega 28 gráður á Selfossi. Hafgolan var eiginlega kærkomin því hitinn er nú 23,6 gráður.Ég var að niðurlotum kominn eftir göngu úr Ástjörn uppí Breiðumýri. Nýja framljósið er komið í grænu þrumuna. Ég er ekki úrkula vonar um fisk á sunnudaginn því a.m.k. 1 lax kom á landi í morgun.Svo róta ég honum upp þann 9. Kveðjur Hösi pápus.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online