Tuesday, July 29, 2008

 

Staðræðni.

Í síðasta pistli sagðist undirritaður vera staðráðinn í að krækja í laxfiska þann 27.
En stundum dugar það ekki. Ég ákallaði góðar vættir. Hét á Immu. Skoraði á Hildiþór að krækja einum á færið. Ég hugsaði líka til guðs. Guðs þjóðkirkjunnar. Það þýddi ekkert heldur, enda undirritaður sennilega út af sakramentinu eftir að hafa yfirgefið ríkiskirkjuna. Kannski voru aðstæður ekki sem bestar. Mikill hiti og áin mjög jökullituð. Ég var nú samt ósköp slakur yfir þessu. Veiðin er aldrei gefin fyrirfram, enda færi spennan þá fljótt af þessari indælu iðju. Það gengur bara betur næst. Ásdís veðurfræðingur var að spá allt að 25 stiga hita á næstunni.Ef spáin gengur eftir verður áin lítið skárri en nú.
Ég sá á moggavefnum að Landsbankinn hefur grætt 5 milljarða á mánuði fyrstu 6 mánuði ársins. Enginn kreppa á þeim bænum. Sigurjón bankastjóri brosir breitt. Síðustu 3 mánuðir hafa skilað bankanum 11 milljörðum í "þjónustutekjur". Þetta er árangur einkavæðingarinnar. Nú er hægt að okra yfirgengilega á viðskiptamönnum þessa banka. Ég hef verið í viðskiptum við hann allt frá barnsaldri.Kannski er hann lítið verri en hinir bankarnir. Blóðmjaltirnar eru ástundaðar þar líka. Þessar stofnanir eru allar keimlíkar. Það sem tapast hefur í fáránlegu pókerspili stjórnendanna má alltaf vinna upp með gegndarlausu okri á okkur aumingjunum. Við verðum alltaf neðstir í goggunarröðinni. Hluthafarnir ávallt í forgangi. Hvernig væri að viðskipavinir bankans fengju líka hlutdeild í öllum gróðanum? Það er auðvitað borin von. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Hugsjónin um rétt hins sterka til að troða hinn smáa í svaðið er aðall okurherranna. Gamli draugurinn og yfirnagarinn una glaðir við sitt. Eða öllu heldur okkar. Þeir gáfu vinum sínum bankana. Eigur okkar. Og samviskan plagar þá ekki verulega. Það er heldur enga stefnubreytingu að sjá þrátt fyrir aðild SF að landstjórninni. Ég legg til að öll ríkisstjórnin skreppi til útlanda á farmiða aðra leiðina. Hún væri t.d. vel geymd í Zimbave.

Við Kimi erum hér á rjátlinu eftir venju. Nú étur hann Purina þurrfóður í stað Whiskas. Það er strax munur á feldinum. Hárlosið hefur snarminnkað og fallegur gljái á mínu ágæta dýri. Nýja fæðið er nokkru dýrara en hitt en það skiptir ekki sköpum. Rauðskott mitt er alls góðs maklegt. Við fósturfeðgar sendum útvöldum bestu kveðjur úr sumarblíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online