Wednesday, July 23, 2008

 

Veisluhöld.

Þó Ölfusá sé ekki þekkt fyrir að vera meðal gjöfulli laxveiðiáa landsins bláa, þá erum við veiðimenn alsælir með gang mála. Undanfarna 8 daga er búið að landa 109 löxum sem eru rúmlega 13 stykki á dag. Það eru ansi mörg ár síðan slíkt hefur gerst.Að kvöldi gærdagsins var búið að bóka 196 laxa og ca. 10 væna sjóbirtinga. Áin er nú nokkuð skoluð eftir rigningu mánudagsins. Ég á ekki veiðidag fyrr en á sunnudaginn og iða í skinninu. Hunterinn bærir á sér og nú bókstaflega skal ég fá hann í Víkinni. Setti þar í 4 laxa á síðasta veiðidegi en þeir kvöddu allir. Næstum farið að síga í gamla Gráskegg. En mín alþekkta geðprýði varð yfirsterkari og 2 laxar á seinni vaktinni bættu þetta upp. Ef veislan heldur áfram má gera ráð fyrir að þetta verði besta veiðisumarið í áratugi. Laxarnir eru að vísu frekar smáir miðað við það sem áður var. Megnið er á bilinu 2-3 kg. Afbragðsmatfiskur og laxinn er sprækur og skemmtilegur á stönginni.
Það er enn dumbungur og rétt sést í rætur Ingólfsfjalls. Kimi liggur í glugganum og þvær loppur sínar eftir könnunarleiðangur í vætunni. Milt veður og veiðimenn hafa nú rennt færum sínum. Líklegt að línur muni strengjast í dag eins og að undanförnu.Ég skilaði Kóreuvagninum í gær. Vonast eftir þrumunni í dag eða á morgun. Veltur á öðru framljósinu sem er væntanlegt frá USA. Gamli Lancerinn malar eins og Raikonen. Seigur vagn þó gamall sé orðinn. Undirritaður svaf óvenjumikið í nótt. Líklega í eina 6 eða 7 klukkutíma. Venjulega svefnléttur og 4-5 tímar duga oftast þegar sumarið hefur völdin.A.m.k. 4 laxveiðidagar eftir og Veiðivötnin að auki. Kominn tími á stórurriða þaðan. Við Kimi erum kátir og hressir í morgunsárið. Hann svaf endilangur á dýnunni góðu sem skáldið gisti á aðfaranótt 3ja stanga dagsins sem varð okkur feðgum svo heilladrjúgur. Hafi ég einhverntíma séð mann brosa eins og sólin sjálf var það skáldið mitt að kvöldi þess 18. þessa mánaðar. Líklega lítið vafamál hvaðan það hefur veiðidelluna. Kærar kveðjur til afkomenda og vina, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jamm, þetta var mikill dúndurdagur. Og hvað, virðist ekkert lát ætla að verða á mokinu? Við vorum að gera því skóna að laxarnir yrðu 200 um mánaðamótin en þær gætu eins orðið 300 ef áfram heldur sem horfir, og þá auðveldlega 400 í heildina. Kveðjur á Selfoss, Sössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online