Tuesday, July 08, 2008

 

Þeysireið....

á þrumu grænni. Ég sótti skáldið til Reykjavíkur á laugardaginn. Þaðan fórum við austur í Haukadal og hittum hluta af stórfjölskyldunni, eins og venja er til þann 5. júlí. Að áliðnum degi héldum við heim á Selfoss og undurbjuggum veiðitúrinn í Eystri Rangá. Þar þurftum við að vera kl. hálfsjö þann 6. Fyrri vaktin var tíðindalítil og við sáum ekki fisk. Fengum okkur lambakótilettur í hléinu. Hálfdasaðir, enda lítið búnir að sofa. Það kemur nú yfirleitt ekki að sök á þessum árstíma. Við byrjuðum svo á svæði 5 á seinni vaktinni. Þar var líflegra og við sáum fljótlega fisk lyfta sér. Þó undarlegt megi virðast þá gleymdi ég að taka ánamaðkana með. Keypti nokkra af góðum veiðimanni. Það dugði. Skáldið krækti í 2 ágæta laxa með stuttu millibili. Vildu frekar orm en aðra beitu. Við hættum um hálfníu, héldum í veiðihúsið og bókuðum fiskana. Þaðan lá leiðin austur að Höfðabrekku þar sem skáldið dvelur nú við ritstörf sín. Þegar ég lagði af stað heimleiðis var komin svartaþoka. Það er ekki skemmtilegt að aka þjóðveginn við slíkar aðstæður. Komst þó heill heim en þokan lét engan bilbug á sér finna og ég rétt fann afleggjarann heim í Ástjörn. Var heilsað með mjálmi um leið og lykillinn rann í skrána. Þreyttur veiðirefur sofnaði fljótt enda orðinn lúinn eftir skemmtilegt ferðalag. Ekki oft sem 500 km liggja að baki eftir helgina. Rólegheit í gær og góður svefn í nótt. Sá gamli á svo veiði bæði 9. og 10. og hyggur gott til glóðarinnar. Nokkur dagaskipti í laxinum í Ölfusá. Á sunnudag lágu 8 laxar í valnum eftir daginn en aðeins 1 á gær. U.þ.b. 50 komnir á land og nokkrir mjög góðir sjóbirtingar. Það er sérdeilis mikill eðalfiskur ekki síður en laxinn, sjálfur konungur fiska. Við Raikonen erum snemma á fótum að venju. Hann er á rjátli inn og út um gluggann. Hurðir og gluggar uppá gátt í sumarblíðunni. Þoka niður í miðjar hlíðar á fjallinu góða en lognið er algjört.
Það var bakkað á grænu þrumuna kyrrstæða á laugardagskvöldið. Heiðarleg frú beið við vagninn en stakk ekki af eins og alltof oft gerist. Nýr afturstuðari var pantaður frá USA í gær og þessi eðalvagn fer í viðgerð á mánudaginn. Ég hlakka sannarlega til að endurheimta eldinguna jafngóða og áður. Sjálfum mér hafði tekist að krambúlera þennan góða vagn að framan í júní s.l. Þær verða glæsilegar þrumurnar, sú græna og hin svarta Magnúsar, þegar við brunum til fjalla þann 12 ágúst. Hinn rómaði 3ja stanga dagur er föstudagurinn 18. júlí. Oftast gefið eitthvað og stundum höfum við veitt frábærlega vel. Það eru semsagt aðallega brauð og leikir á dagskrá Hösmaga þessa fallegu júlídaga. Þetta stuðlar að vellíðan frá amstri og áhyggjum hins daglega lífs. Rauðhausar senda kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Skáldið sló sem sagt Fiskihrelli við. Það var og. 2-0.
 
Gaman að heyra veiðisögu. Kveðjur frá Kbh.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online