Wednesday, July 16, 2008

 

Daprir munu....

glaðir verða. Leit á þrumuna mína í fyrradag. Ósköp dapurleg ásýndum. Stuðaralaus og ekkert grill. Þessi rennireið er örugglega með sál. Endurheimtir brátt gleði sína og glæsileika. Ég fer á Kóreuvagninum í afmæli Ingunnar Önnu í dag.Litla snótin 6 ára á þessum fallega sumardegi. Ölfusá bíður eftir okkur feðgum í fyrramálið. Ég minntist á það síðast að laxarnir yrðu 100 í vikulokin. Það gerðist reyndar í gær og nú eru þeir orðnir 107. Og þrír dagar eftir af vikunni. Morgundagurinn leggst mjög vel í mig. Bjartsýnin ríkir og veruleg eftirvænting eftir að telja upp fiska úr elfunni góðu. Það eykur líka á ánægjuna að hafa synina með mér. Ekki svo oft sem ég hef þá báða nálægt mér. Vona að veiðigyðjan verði okkur hliðholl þennan komandi föstudag.
Ég gerði ferð að óðali mínu í gær. Óðalsbóndinn Steinar á Syðri-Brú ætlar að leggja ræsi og veg að spildunni á morgun. Það verða nú varla miklir fjármunir til frekari framkvæmda á þessu ári. Það koma tímar og ráð síðar. Kærleikskotið hefur alls ekki verið blásið af. Ég komst svo uppá Flúðir í gærkvöldi. Varð glaður og feginn að koma heim undir miðnættið. Kimi hafði skilað sér heim eftir langa útiveru. Hann kann að njóta útiverunnar í sumarblíðunni eins og við hin. Hitinn komst í 19 gráður í gær. Laxinn samt nokkuð tilkippilegur því 11 stykki lágu í valnum eftir daginn. Víkin er með daufara móti í sumar. Þó komu 4 á land þar í gær. Ég stoppaði þar í klukkutíma og sá allmarga laxa lyfta sér á meðan. Tignarlegur fiskur, laxinn.

Klukkan er nú rúmlega 7 að morgni dags. Veiðimenn væntanlega búnir að renna færum sínum víða um land. Veðrið mjög gott hér og norðangarrinn frá í fyrradag löngu genginn niður. Góð veðurspá fram yfir helgi. Ákaflega ljúft. Megi línur okkar feðga strengjast verulega á morgun. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online