Thursday, July 03, 2008

 

Sumar.

Ég er nú ekki alveg hættur að blogga þó þetta megi kalla strjáling eins og ég nefndi það einhverntíma. Hitinn fór í rúmar 18 gráður í gær. Væta í gærmorgun. Svo blés hann bara og þurrkaði vætuna burt jafnharðan. Hörður bílameistari vökvaði fyrir mig garðinn hjá sér í gær. Lítið um maðk til beitu þessa dagana. Ég sofnaði um ellefuleytið og hafði stillt klukkuna á eitt. Rúmlega 12 hringdi Hörður. Hann var að bardúsa í bílskúrnum að venju. Hafði gómað 2 orma. Ég lagði fljótlega í hann og Raikonen botnaði ekkert í þessu flandri fóstra síns eftir miðnættið. Ormurinn var óvenjulega styggur. Með nokkrum yfirferðum með kjaftahvíld í milli tókst okkur að ná rúmlega 50 ánamöðkum. Það dugar allavega í veiðiferð okkar skáldsins í Eystri-Rangá á sunnudaginn kemur.Flugustöngin verður meðferðis, túpur og spúnar. Ég er farinn að hlakka til ferðarinnar. Mér hefur reynst það erfitt undanfarna daga. Sálarkvölin ekki alveg verið í jafnvægi. Smá tómarúm eftir að ég hætti að vinna á Bakka. 9-5 rútínan út af laginu og maður kann ekki við það. Kannski mætti segja að ég sakni starfsins á þessum vinnustað. Það er líka það eina sem ég sakna þaðan. Lífið heldur áfram og oftast má fá annað skip og annað föruneyti. Það mun takast þó síðar verði.
Nokkuð góður gangur í veiðinni í Ölfusá og í gærkvöldi höfðu veiðst 24 laxar og 2 góðir sjóbirtingar. Það er miklu betri byrjun en í fyrra og var það þó skásta veiðisumarið í mörg ár. Ég á 2 veiðidaga í ánni í næstu viku og ætla að njóta þeirra til fullnustu. Júli jafnan langfengsælasti veiðitíminn. Ég er að vona að skúrirnar verði fleiri þegar líður á daginn. Þá væri ef til vill mögulegt að bæta nokkrum ormum við. Ég geymi þá í skúffunni neðst í ísskápnum. Eins gott að það er engin kona hér á heimilinu. Og Kimi kemst ekki í skápinn. Honum þættu þessir plastpokar með mosa áhugavert rannsóknarefni. Einu sinni voru maðkarnir í fötu á svölunum og honum tókst að veiða nokkra upp úr fötunni með klóm sínum. Við slæmar undirtektir fóstra síns. Á laugardag fer ég upp í Haukadalsskóg eins jafnan þann 5. júlí. Kem heim síðdegis og svo kemur Sölvi og gistir. Spennandi að reyna við ný mið á sunnudaginn. Kimi er nú lagstur hér á borðið. Nokkur vindur utandyra og hann kann ekki við það. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hvernig gekk í Rangá?
 
Þetta var bara fínn túr. Skáldið var í essinu sínu og krækti í 2 laxa, 6 og 9 punda. Ágætt veður og alltaf gaman að kynnast nýjum veiðilendum. Ættfaðirinn á svo veiði á heimaslóðum á morgun, þann 9 og aftur þann 10. Kominn hugur í þann gamla.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online